80 ný smit af kórónuveirunni

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir og Alma D. Möller land­lækn­ir hafa upplýst …
Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir og Alma D. Möller land­lækn­ir hafa upplýst þjóðina um stöðu mála undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

80 ný kórónuveirusmit greindust síðasta sólarhringinn. Nýjar upplýsingar um smit voru birtar á vefnum Covid.is klukkan 11. Alls hafa 330 smitast af kórónuveirunni á Íslandi en 3.718 eru í sóttkví. Af þeim 330 sem hafa smitast er 301 á aldrinum 20-69 ára. Aðeins sjö hafa smitast á aldrinum 70-79 ára og enginn yfir áttrætt. 

Samkvæmt nýjum upplýsingum hafa 532 lokið sóttkví en sýni hafa verið tekin úr 7.833 einstaklingum. Af þeim sem greindust smitaðir voru sjö sem höfðu farið í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu en 66 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.

Nánast sama hlutfall kvenna og karla hefur smitast og enn er hægt að rekja flest smit til útlanda eða 41%. Innanlandssmit eru 26% og óþekkt 33%.

Alls eru 287 smitaðir á höfuðborgarsvæðinu og 2.595 eru í sóttkví. Á Norðurlandi eystra hafa greinst 2 smit og 177 eru í sóttkví. Á Suðurlandi eru 24 smitaðir og 462 í sóttkví. Eitt smit hefur komið upp á NV-landi og þar eru 238 í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 12 smitaðir og 142 í sóttkví. Enginn hefur smitast á Austurlandi (22 í sóttkví), Vestfjörðum (17 í sóttkví) og á Vesturlandi þar sem 44 eru í sóttkví. Óstaðsett smit eru 4 talsins og 19 í sóttkví og samkvæmt covid.is eru 4 útlendingar í sóttkví. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur boðað til upplýsingafundar fyrir blaðamenn klukkan 14:00 í Skógarhlíð 14.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, og Alma D. Möller landlæknir munu fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19, staðfestra smita hér á landi, aðgerða stjórnvalda o.fl.

Á fundinum mun einnig Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður smitrakningateymis almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis ræða verkefni teymisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert