Evrópusambandið bannar sölu á grímum til Íslands

Starfsfólk þarf að vera vel varið til að forðast kórónuveirusmit.
Starfsfólk þarf að vera vel varið til að forðast kórónuveirusmit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Evrópusambandið bannar birgjum í löndum innan sambandsins að selja andlitsgrímur og annan persónulegan hlífðarbúnað út fyrir sambandið. Þetta þýðir að slíkar vörur eru ekki sendar til Íslands. Afgreiðslubannið gildir í sex vikur. Andlitsgrímur og annar hlífðarbúnaður, sem heilbrigðisstarfsfólk og aðrir í framlínunni þurfa, er þegar uppseldur hjá birgi hér á landi.  

Fyrirtækið Dynjandi, sem selur öryggisvörur hér á landi, fékk þessi svör í gær frá birgjum sínum í Þýskalandi og Ítalíu. Það sama gildir um Noreg.   

„Þetta er skelfileg staða,“ segir Þorsteinn Austri, sölustjóri hjá Dynjanda. Beðið er svars frá þriðja birginum núna en send var inn umsókn fyrir hönd heilbrigðisyfirvalda og óskað eftir tilteknum hlífðarbúnaði. Ekki er búið að afgreiða hana og viðbúið að það taki langan tíma því umsóknin fer í ferli innan fyrirtækisins og þá er ákveðið hvort varan sé seld til Íslands sem og magnið. „Eftirspurnin er auðvitað rosaleg. Við vitum ekki hvort við fáum sama svar frá þeim og hinum. Við vonum auðvitað ekki,“ segir hann.  

Í morgun hafði Dynjandi samband bæði við utanríkisráðuneytið og atvinnumálaráðuneytið og greindi þeim frá stöðunni. Þorsteinn segir að þá hafi enginn vitað hver ætti að taka boltann. „En ég trúi ekki öðru en íslensk stjórnvöld geri allt sem þau geta til að ýta einhverju í gang,“ segir Þorsteinn. Staðan kom þeim í opna skjöldu, að sögn Þorsteins.   

Vörurnar sem vantar sárlega eru meðal annars: andlitsgrímur, hlífðarfatnaður, einnota hanskar, andlitsgleraugu og hlífar svo fátt eitt sé nefnt. 

Þorsteinn tekur fram að þegar sé orðinn skortur á ýmsum öðrum vörum. Margar af þeim eru framleiddar í Kína, bæði að öllu leyti eða íhlutir og svo settar saman í Evrópu. „Það er algjört stopp í þessu. Þetta hefur ótrúleg áhrif,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert