Bjarni óttast ekki verðbólguskot

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn sem komið er er ekki hægt að lesa það út úr viðbrögðum markaðsaðila að markaðurinn geri ráð fyrir miklu verðbólguskoti sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði fjármálaráðherra hvað hann ætlaði að gera í sambandi við verðtrygginguna. „Verðbólgudraugurinn mun koma upp og það mun koma stökkbreyting á verðtryggð lán heimilanna. Eins og við vitum að skeði í hruninu mun það bitna á þúsundum heimila ef ekkert verður að gert. Ég vil bara fá svar núna strax við spurningunni: Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera í þessu?“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki tímabært að grípa til sérstakrar lagasetningar

Bjarni tók fram að Seðlabankinn væri skyldugur að lögum til að halda aftur af verðbólgunni og hann væri að gera það með þeim tólum og tækjum sem hann hefur. Bjarni sagðist ekki telja tímabært að grípa til sérstakrar lagasetningar vegna verðbólgu og verðtryggingar.

„Ég vek athygli á því að eftir yfirlýsingu Seðlabankans frá því í morgun hafa vextir á verðtryggðum lánum fallið niður í 0%, ekki bara til skamms tíma heldur allt fram til ársins 2026. Markaðurinn gerir ráð fyrir því að vextir verði lágir, ekki bara á þessu ári heldur mörg næstu ár eftir yfirlýsingar Seðlabankans frá því í morgun. Þetta skiptir miklu þegar spurt er hvernig aðgerðir stjórnvalda geti haft áhrif á hag heimilanna,“ sagði Bjarni.

Hann bætti því við að það megi ekki gleyma stöðu þeirra sem hafa tekið óverðtryggð lán í stórauknum mæli á undanförnum árum vegna þess að greiðslubyrði þeirra muni hækka miklu meira en þeirra sem hafa verðtryggð lán og njóta í raun skjóls af verðtryggingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert