Afbókanir allt að 6 mánuði fram í tímann

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir ljóst að íslensk ferðaþjónusta sé að …
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir ljóst að íslensk ferðaþjónusta sé að mestu búin að tapa háönninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðaþjónustufyrirtæki eru farin að taka við afbókunum allt að sex mánuði fram í tímann. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir ljóst að íslensk ferðaþjónusta sé að mestu búin að tapa háönninni.

Jóhannes Þór Skúlason segir í samtali við mbl.is að það sé ýmislegt í gangi í afbókunum, en menn sjái þó ekki aðeins afbókanir heldur líka endurbókanir. „Þetta kemur ekki beint á óvart. Undanfarnar vikur höfum við séð afbókanir á öllu tímabilinu, en það er líka verið að færa bókanir og fólk er að endurbóka sig.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta ástand er að fara að dragast langt inn í sumarið og ég held það sé orðin veruleg hætta á að allt sumarið gæti orðið undir, svo við erum í rauninni búin að tapa háönninni hjá ferðaþjónustunni að langstærstum hluta,“ segir Jóhannes og að það hafi eðlilega hrikaleg áhrif á fyrirtækin.

Tekjustraumur nánast horfinn

„Þetta þýðir að fyrirtækin eru tekjulaus á meðan þetta ástand varir. Við sjáum það nú þegar að tekjustraumur inn í fyrirtækin er eiginlega bara horfinn. Fyrirtæki sem ekki hefur tekjur mánuðum saman, það er augljóst að það getur ekki verið með fólk í vinnu, getur ekki greitt laun eða opinber gjöld og svo framvegis.“

Jóhannes Þór segir að þær aðgerðir sem þegar hafi verið kynntar og þær sem eigi eftir að kynna þurfi að miða að því að takmarka útstreymi lausafjár úr fyrirtækjunum.

„Eins og forsætisráðherra sagði þegar þau kynntu aðgerðapakkann á laugardaginn, þá mun þurfa að fylgjast með ástandinu og bregðast við eftir því sem það þróast. Við sjáum það á þessari viku síðan þær voru kynntar að það verður full þörf á að gera það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert