Ekkert leikskólabarn í Reykjavík með COVID-19

Þetta kemur fram í bréfi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem …
Þetta kemur fram í bréfi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem sent hefur verið foreldrum barna í leik- og grunnskólum borgarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Hinn 24. mars hafði stjórnendum leikskóla Reykjavíkurborgar ekki borist nein tilkynning um að kórónuveirusmit hefði komið upp hjá leikskólabarni. Þá er aðeins vitað um ellefu smit á meðal barna á grunnskólaaldri í Reykjavík.

Þetta kemur fram í bréfi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem sent hefur verið foreldrum barna í leik- og grunnskólum borgarinnar í kjölfar bréfs sóttvarnalæknis þar sem hvatt var til þess að heilbrigð börn héldu áfram að sækja skóla og leikskóla og vill skóla- og frístundasvið borgarinnar taka undir þessi tilmæli.

Smit meðal starfsfólks fátíð

Þá segir að í bréfi sóttvarnalæknis hafi komið fram að líkur á smiti frá ungum börnum er töluvert ólíklegra en frá fullorðnum, enda sýna rannsóknir hér á landi og á hinum Norðurlöndunum að smit hjá börnum er fátítt. Því má leiða líkum að því að ekki er tilefni til þess að takmarka skólastarf frekar í sóttvarnarskyni.

Upplýsingar frá skólastjórnendum í Reykjavík frá 24. mars staðfesta þetta. Enginn stjórnandi leikskóla hefur fengið tilkynningu um smit hjá leikskólabarni og smit hafa verið tilkynnt hjá ellefu börnum á grunnskólaaldri (6-15 ára). Jafnframt hafa smit starfsfólks verið fátíð fram til þessa (tíu í leikskóla, tíu í grunnskóla og eitt í frístundaheimilum). Það gefur okkur vísbendingar um að þær takmarkanir og verkferlar sem gripið hefur verið til í starfi leikskóla og grunnskóla og í frístundastarfi séu að skila tilætluðum árangri.

Óski eftir leyfi með skriflegum hætti nú sem endranær

Í bréfinu segir að mikilvægt sé að halda áfram í þessum farvegi og tryggja heilsu barna og starfsfólks. „Við minnum foreldra á mikilvægi þeirra í þeim tilmælum og sóttvörnum sem send hafa verið (s.s. handþvottur, sótthreinsun handa með handspritti, nálægðarviðmið og umgengni um skóla) en biðjum jafnframt alla, bæði börn og fullorðna sem finna fyrir flensueinkennum, að halda sig heima. Jafnframt biðjum við um að ung börn þ.e. upp að u.þ.b. 7 ára aldri sem ekki geta skilið eða virt fjarlægðarmörk í samskiptum komi ekki í skóla ef einhver á heimilinu er í sóttkví.“

Þá er minnt á að þeir foreldrar sem af einhverjum ástæðum óski eftir leyfi fyrir barnið sitt frá skólasókn í grunnskóla þurfi nú sem endranær að gera það með skriflegum hætti hjá skólanum. Þá þurfi foreldrar leikskólabarna sem kjósa að halda börnum sínum heima að láta leikskólastjóra vita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert