Tillögur um ferðamál á næstu dögum

Tillögur sóttvarnalæknis um tilhögun ferðamála hér á landi í sumar …
Tillögur sóttvarnalæknis um tilhögun ferðamála hér á landi í sumar eru væntanlegar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir væntir niðurstaðna starfshóps um væntanlega tilhögun ferðamála hér á landi „öðrum hvorum megin“ við helgi. Í framhaldinu mun hann skila ráðherra minnisblaði með sínum tillögum.

„Það er vinna í gangi til að kanna hvort og hvernig eigi að stýra komum ferðamanna hingað til lands. Sú regla er núna í gildi að einstaklingar sem eru búsettir á Íslandi þurfa að fara í sóttkví. Þessi regla hefur ekki gilt um erlenda ferðamenn en ég tel mikilvægt að við könnum allar leiðir til að einhvers konar hömlur muni gilda líka um þá, til þess að við fáum ekki smit heim til Íslands,“ segir Þórólfur um framhaldið. Mikilvægt sé þá að alþjóðasamfélagið taki höndum saman um hvernig ferðamálum verði háttað. 

Að öðru leyti sagði hann faraldurinn áfram í niðursveiflu og að smitum ætti að fara áfram fækkandi. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ítrekaði að „það er ekki kominn 4. maí“, þannig að ekki megi nú fara að haga sér eftir þeim afléttingum sem þá taka gildi.

Þórólfur ræddi þá það háa hlutfall Íslendinga sem hafa farið í skimun fyrir veirunni: „Þetta er eiginlega algert heimsmet, myndi ég halda. Þetta er mjög hátt hlutfall.“ 38.204 sýni hafa verið tekin, af rúmlega 11% fólks hér á landi.

Staðfest­um kór­ónu­veiru­smit­um fjölgaði um 12 síðastliðinn sól­ar­hring og er heild­ar­fjöldi staðfestra smita því orðinn 1.739. Mun fleiri hafa náð bata en eru með virkt smit. Virk smit eru 587 tals­ins en 1.144 hafa náð bata. Alls voru 336 sýni tek­in hjá sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans og 482 hjá Íslenskri erfðagrein­ingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert