Sakar Steingrím um að ljúga og misnota aðstæður

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að Steingrímur J. Sigfússon, …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi logið blákalt í fjölmiðlum og hægt sé að sýna fram á það. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sakar Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, um að hafa reynt að misnota aðstæður í því neyðarástandi sem ríkir til að gera stjórnarandstöðunni erfitt fyrir og ljúga síðan um það.

Þetta kom fram í máli hans í Vikulokunum á RÚV þangað sem Helgi Hrafn var mættur til að ræða uppákomuna á Alþingi á fimmtudaginn þegar Steingrímur sleit þingfundi eftir aðeins fimm mínútur eftir að hann var gagnrýndur harðlega af Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, og í ljós kom að fjöldi þingmanna í þingsal var meiri en 20 manns. Því væri verið að brjóta gegn reglum um samkomubann.

Gagnrýni Jóns Þórs sneri að því að Steingrímur hefði sett frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um vegaframkvæmdir á dagskrá vitandi að það væri ágreiningsmál og að stjórnarandstaðan myndi vilja fá að tjá sig um málið í fyrstu umræðu.

Í samtali við mbl.is á fimmtudaginn sagði Steingrímur að fundinum hefði verið slitið því honum hugnaðist ekki að bjóða þjóðinni upp á það að horfa á þjóðþingið sitt í innihaldslausu og ástæðulausu þrasi á jafn alvarlegum tímum og nú eru.

Hann undraðist það að stjórnarandstaðan hefði ekki einu leyft óundirbúnum fyrirspurnum að klárast áður en athugasemdir hefðu verið gerðar við aðra dagskrá þingfundarins. Þá sagðist hann hafa látið stjórnarandstöðuna vita daginn áður að málið myndi mætti mæta afgangi og yrði ekki tekið fyrir ef stjórnarandstaðan vildi það ekki.

„Segir meira um hans hæfni sem forseta“

„Forseti reyndi að misnota aðstæður sem við erum í núna og gera stjórnarandstöðunni erfitt fyrir og sumum þingmönnum ómögulegt fyrir að beita sínu lýðræðislega aðhaldi,“ sagði Helgi Hrafn og bætti því við að Steingrímur hefði vitað það mæta vel að stjórnarandstæðan ætti sérstaklega erfitt með að veita aðhald á meðan það eru takmörk á því hversu margir þingmenn geti mætt í þingsal.

Með því að setja málið á dagskrá hefði hann neytt stjórnarandstöðuna til að annaðhvort sitja á sér og sleppa því að beita sínu lýðræðislega aðhaldi eða þá að fjölmenna niður á þing.

„Við erum í miðju neyðarástandi, það að hann geti ekki sett þingfund þannig að það sé sátt um það milli allra þingflokka í þessu ástandi segir meira um hans hæfni sem forseta en nokkuð annað,“ sagði Helgi og bætti í:

„Það sem er erfiðast og leiðinlegast við þetta er það þegar forseti kemur síðan í fjölmiðla og lýgur og segir ósatt um atburðarásina, þykist vera voðalega hissa þegar dagurinn áður fór í lítið annað en þetta.“

Steingrímur þurfi almennt að stýra með valdboði

Helgi sagði að gagnrýni hans á vinnubrögð forseta væru tvíþætt. Annars vegar að hann hafi reynt að misnota aðstæður til að gera lífið auðveldara fyrir stjórnarmeirihlutann, sem sé ekki í lagi. Hins vegar að Steingrímur þurfi almennt að stýra með valdboði og sé ekki til í vinnubrögð önnur en þau sem snúast um að hann ráði öllu og að hann geri það sem honum sýnist sama hvað tautar og raular.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, slítur þungfundi um það bil …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, slítur þungfundi um það bil fimm mínútum eftir að hann hófst. Skjáskot/Alþingi

Í facebookfærslu sem Helgi birti síðan eftir þátt viðurkenndi hann að hafa verið „fullreiður“ í viðtalinu. Hann hafi reynt að vera yfirvegaður en það hafi ekki tekist. Í færslunni útskýrir hann svo hvað olli þessari reiði og skrifar að það sé þegar fólk lýgur.

„Ég veit að forseti Alþingis laug blákalt í fjölmiðlum“

„Að segja eitthvað sem er hægt að sýna fram á að sé á skjön við staðreyndir sem mælandinn sjálfur þekkir mætavel, og er fullkomlega meðvitaður um að hann sé að segja ósatt frá. Hún er ekki pirrandi löstur. Hún er fyrir þeim sannleiksþyrstu það sem guðlast er fyrir hinum trúuðu,“ skrifar hann meðal annars áður en hann sakar Steingrím aftur um að ljúga blákalt.

„En ég veit að forseti Alþingis laug blákalt í fjölmiðlum um atburðarásina á þingi í þessari viku, og ég veit að hann gerði það meðvitað. Það er ekki víst að þið getið vitað það, hinsvegar, og sú staða hefur tvær afleiðingar.

Lygin muni sigra

Sú fyrri er að þið getið ekki trúað mér nema þið treystið mér til að segja satt sjálfur. Eðlilega er allur gangur á því. Ef fólk hefur virkilega ekkert að gera við sinn tíma mæli ég þó með því að fólk lesi vel fréttir af þessu, því það sést ef vel er að gáð.

Sú seinni er alvarlegri: sú að forseta tekst, með áratuga reynslu af ógeðslegasta hluta hinnar svokölluðu pólitíkur, að ljúga á þann hárnákvæma hátt að hann stýrir skynjun fólks sér í vil og gegn fólkinu sem er að reyna að sýna honum, og hans taumlausa drottnunarlosta, smá aðhald.“

Hann endar færsluna á því að hann verði reiður þegar hann sér, enn og aftur, að lygin muni sigra.

Steingrímur vildi ekki tjá sig um ásakanir Helga þegar eftir því var leitað.

 Uppfært klukkan 19:29. Upphaflega var haft eftir Helga Hrafni að Steingrímur hefði reynt að misnota aðstöðu sína. Helgi Hrafn var hins vegar að tala um aðstæður sem kórónufaraldurinn veldur. Hefur það verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert