Katrín Jakobsdóttir í Spiegel

Viðtal við forsætisráðherra Íslands prýðir nú forsíðuna á vefsíðu þýska …
Viðtal við forsætisráðherra Íslands prýðir nú forsíðuna á vefsíðu þýska tímaritsins Spiegel og í því er rætt við hana um kórónuveiruna, ferðaþjónustuna og efnahaginn – en líka syni hennar, sem eru aðeins tvo tíma í skólanum á dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar bekkjarbróðir sonar hennar veiktist af Covid-19, fór Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í sýnatöku fyrir sjúkdómnum og hélt sig eins lengi heima og þurfa þótti þar til gengið yrði úr skugga um að hún væri ekki sjálf með veiruna.

Á þessum nótum hefst viðtal þýska fréttatímaritsins Der Spiegel við Katrínu og hér má taka fram, þótt ekki sé það gert þar, að Katrín var ekki með Covid-19. Í viðtalinu er þó farið í ýmis önnur mál, einkum sérstaklega góðan árangur Íslendinga í baráttunni við veiruna. Um leið er vöngum velt yfir framtíðarhorfum fyrir Íslendinga og ekki síst ferðaþjónustuna hér á landi.

Aðspurð hvað skipti sköpum í góðum árangri hjá Íslendingum segir Katrín: „Ríkisstjórnin lagði sérstaka áherslu á styrkingu heilbrigðiskerfisins. Og Ísland er lítið land, sem gerir okkur kleift að bregðast hratt við. Við höfum síðan fylgt tilmælum sóttvarnalæknis og landlæknis í einu og öllu.“

Vakin er athygli á því að Íslendingar hafi nú tekið sýni hjá um 12% þjóðarinnar, hæsta hlutfalls í heimi, á meðan Þjóðverjar eru mun neðar á listanum, með um 2%. Sagt er frá því að á Íslandi sjái Íslensk erfðagreining að miklu leyti um þessar skimanir, og Katrín er spurð hvort hún hafi ekki áhyggjur af gögnunum.

„Þetta var rætt fram og til baka en persónuverndaryfirvöld og vísindasiðanefnd hafa farið gaumgæfilega í gegnum þetta allt og lagt blessun sína yfir þetta,“ segir Katrín.

Strákarnir fara í skólann í tvo tíma á dag

Þann 4. maí verður samkomutakmörkunum á Íslandi að hluta aflétt, eins og Spiegel bendir á. „Eruð þér vongóð um að það versta sé að baki?“ spyr blaðamaðurinn Katrínu, þérandi að þýskum sið.

„Það er enn of snemmt að hrósa sigri. Sundlaugar og aðrar opinberar stofnanir verða áfram lokaðar. En við sjáum samt að faraldurinn er smátt og smátt í rénun hjá okkur,“ segir Katrín og tilgreinir nákvæmlega hvað mun opna, eins og skólar.

„Og eru synir yðar þrír farnir að mæta í skólann?“ er hún þá spurð.

„Já, en bara í tvo tíma á dag. Á leikskólum og í grunnskólum geta bara 20 verið í sama rými hverju sinni. Það var sérstaklega mikilvægt að halda þeim gangandi, ekki aðeins fyrir foreldra og börn, heldur einfaldlega allt samfélagið,“ svarar Katrín.

Aldrei sagt skilið við umhverfisvernd

Víkur þá sögunni að baráttunni gegn hlýnun jarðar, sem blaðamaðurinn segir Katrínu hafa gert að sínu helsta baráttumáli. Hann spyr hvort sú forgangsröðun sé breytt vegna heimsfaraldurs.

„Við höfum aldrei sagt skilið við umhverfisvernd. Samgöngur eiga að verða loftslagshlutlausar 2040 og við vinnum nú að frekari verkefnum sem við munum fara af stað með þegar kórónukrísan er að baki,“ svarar Katrín.

„Yður er í mun að breyta mælikvörðum ríkja á lífsgæði borgara sinna. Hvernig þá?“ spyr blaðamaðurinn.

„Á síðasta ári settum við fram 39 mælikvarða sem eiga að mæla heill samfélagsins og velferð. Þar koma inn menntun, umhverfismál, heilbrigðismál og húsnæðismál, þannig að við einblínum ekki um of á landsframleiðslu og atvinnumál,“ svarar Katrín.

Komum tvíefld til baka

Katrín segir ljóst að kórónuveiran hafi sett sitt mark á efnahaginn. „Hagkerfið er að skreppa saman í augnablikinu. Við gerum ráð fyrir um 15% atvinnuleysi, en ég trúi því samt sem áður að einmitt þessir nýju mælikvarðar fyrir lífsgæði sem ég nefndi geti leitt okkur út úr krísunni.“

Spiegel bendir á að ferðaþjónustan hafi þegar verið orðin veigamikill þáttur í íslensku efnahagslífi og Katrín bendir á að þar hafi vöxturinn verið í veldisvexti á síðustu árum, sem hafi þó hægt á vegna falls WOW air. „Margir Íslendingar hafa fjárfest mikið í ferðaþjónustuverkefni og safnað miklum skuldum. Það gæti orðið vandamál núna. En ég er vongóð um að við komum tvíefld til baka.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert