„Grafalvarlegt inngrip í kjarasamningsviðræður“

Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands segir Icelandair hafa gengið á bak orða sinna með tölvupóstasendingu Boga Nils Bogasonar, forstjóra félagsins, í dag. 

Samkvæmt heimildum mbl.is féllst samninganefnd Icelandair á það í morgun að tilboð félagsins yrði ekki sent beint til félagsmanna, En Bogi sendi í dag fé­lags­mönn­um í Flug­freyju­fé­lagsins tölvu­póst með til­lögu Icelanda­ir að þeim kjara­samn­ingi sem fé­lagið hef­ur boðið flug­freyj­um, ásamt skýr­ing­um og kynn­ing­ar­bæk­lingi. Sagðist hann vilja veita upplýsingar um samningstilboð félagsins milliliðalaust, en Flugfreyjufélagið hafði áður sent félagsmönnum sínum tilboðið með athugasemdum.

Í lokaðri stöðuuppfærslu á Facebook hópi flugfreyja sem Fréttablaðið greindi frá, kemur fram að Icelandair hafi gengist við því í morgun að slíkur póstur yrði ekki sendur út. Um alvarlegt inngrip í kjarasamningsviðræður sé að ræða. Þá segir einnig í færslunni að lögfræðingur ASÍ hafi stutt félagið í því með vísan í lög um vinnudeilur og verkföll. 

Í bréfi sem stjórn félagsins sendi til félagsmanna í kvöld kemur fram að ríkur samningsvilji sé fyrir hendi af hálfu Flugfreyjufélagsins. Þó séu takmörk fyrir því hversu langt megi ganga. 

„Um leið og við lýsum yfir vonbrigðum okkar með að fundi hjá Ríkissáttasemjara fyrr í dag hafi verið slitið án árangurs, er rétt að ítreka og undirstrika að samningsumboðið liggur hjá samninganefnd FFÍ. Afar ríkur samningsvilji er enn fyrir hendi af okkar hálfu, enda mikilvægt bæði félagsmönnum og Icelandair að semja hið fyrsta öllum til heilla. Hins vegar er ljóst að takmörk eru fyrir því hversu langt er hægt að ganga á kjör og réttindi félagsmanna sem barist hefur verið fyrir í áratugi.

Við höldum baráttunni áfram og stöndum keik,“ segir í bréfinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert