Ísland friðsælast 13. árið í röð

Ísland hefur toppað listann öll ár frá því farið var …
Ísland hefur toppað listann öll ár frá því farið var að gefa hann út í núverandi mynd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland er friðsælasta land í heimi þrettánda árið í röð, samkvæmt  friðarvísi Stofn­un­ar um hag­sæld og frið (Institue of Economics and Peace’s Global Peace Index) sem gef­inn var út í dag. Hefur Ísland toppað listann öll ár frá árinu 2008 er fjöldi þeirra ríkja, sem skýrsl­an nær til, var stór­auk­inn og Íslandi bætt í hóp­inn. Friðsæld í heiminum minnkar milli ára, en þetta er fjórða árið af síðustu fimm sem það er raunin. Hefur friðsæld í heiminum minnkað þó nokkuð frá því farið var að gefa listann út í núverandi mynd árið 2008.

Evrópa er sem fyrr friðsælasta álfan, en þar eru sex af tíu friðsælustu ríkjum heims, en verst er ástandið í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Næst á eftir Íslandi er Nýja-Sjáland, en því næst Portúgal, Austurríki og Danmörk og er röð efstu landa óbreytt frá því í fyrra. Botnsæti listans vermir Afganistan en skammt undan eru Sýrland, Írak og Suður-Súdan.

Meðal þeirra þátta sem litið er til við gerð list­ans eru glæpatíðni, hryðju­verka­ógn, fjöldi fanga, alþjóðleg­ar deil­ur sem lönd eiga aðild að, hernaðar­um­svif og aðgengi að vopn­um. Af 23 þáttum sem litið er til reyndist jákvæð breyting milli ára í átta þáttum, en neikvæð í tólf. 

Staða í öryggismálum, aukinn pólitískur óstöðugleiki, ofbeldisfull mótmæli og fjölgun fanga er meðal þess sem er talið minnka friðsæld heimsins milli ára. Þrátt fyrir það eru jákvæð teikn á lofti á ýmsum sviðum. Þannig hafa, frá árinu 2008, 113 ríki heims, vænn meirihluti, fækkað í herliði sínu, 100 dregið úr hernaðarútgjöldum sem hlutfalli af landsframleiðslu og 67 dregið úr magni kjarnorku- og þungavopna. Þá hefur morðum fækkað í 117 ríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert