Leitaði uppi fegurðina eftir veikindi sonarins

Gretar fann sáluhjálp í ljósmynduninni. Mávarnir í fjörunni hjá Hellnum …
Gretar fann sáluhjálp í ljósmynduninni. Mávarnir í fjörunni hjá Hellnum stilltu sér fallega upp fyrir myndatöku í rökkrinu. Ljósmynd/Gretar Örn Bragason

„Þetta létti á manni. Maður gat gleymt stað og stund þegar maður fór í vinnuna og gat komist einhvað í náttúruna,“ segir Gretar Örn Bragason leiðsögumaður. Eftir að sonur hans veiktist af hvítblæði árið 2017 hóf hann að leita uppi fegurðina í kringum sig og festa hana á filmu. Hans fyrsta ljósmyndasýning verður undir berum himni í Skorradal laugardaginn 20. júní. 

„Eftir að sonur minn greinist með hvítblæði spratt upp ákveðin löngun til að fanga fegurðina á filmu. Það var einhvers konar mótvægi við þá erfiðleika sem við fjölskyldan vorum að ganga í gegnum á þessum tíma. Áhuginn kviknaði svolítið út frá því,“ segir Gretar. 

Sonur og vinur Gretars virtu fyrir sér sólarlagið í Krýsuvík.
Sonur og vinur Gretars virtu fyrir sér sólarlagið í Krýsuvík. Ljósmynd/Gretar Örn Bragason

„Það má segja að með sýningunni sé ég að gera upp ákveðinn kafla í mínu lífi,“ bætir Gretar við, sem starfar sem leiðsögumaður. Hann ritstýrði bókum og tímaritum fyrir ferðalög áður en ljósmyndaáhuginn kviknaði. 

Afraksturinn verður til sýnis undir berum himni í skjóli hárra trjáa á Stálpastöðum í Skorradal, þar sem ljósmyndasýningar hafa verið haldnar undanfarin fjögur sumur. Opnar hún laugardaginn 20. júní klukkan 15 og verður opin allan sólarhringinn til 29. september.  

Gretar Örn Bragason.
Gretar Örn Bragason. Ljósmynd/Aðsend

Þakklátur fyrir fjölbreytileikann

Ferðalögin sem fylgja leiðsögumannastarfinu eiga vel við ljósmyndun að sögn Gretars og er hann þakklátur fyrir fjölbreytileikann sem starfið býður upp á. „Þetta er mín fyrsta sýning og það má segja að með henni sé ég að gera upp ákveðinn kafla í mínu lífi,“ segir hann, en sonur hans kláraði sína lyfjameðferð fyrir um hálfu ári.

Myndirnar eru teknar á hinum ýmsu stöðum vítt og breitt um land og eru prentaðar á ál, sem gefur þeim sérstakan blæ. Verkefnið er styrkt af sóknaráætlun Vesturlands. „Þetta er tilvalið tækifæri fyrir fólk að taka dagsferð úr bænum. Það er ekki nema klukkutíma keyrsla upp í Skorradal,“ segir Gretar um sýninguna um næstu helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert