Bjarni: Rafmagnshlaupahjól ótrúlega mikil breyting

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi um nýja út­gáfu af aðgerðaáætl­un …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi um nýja út­gáfu af aðgerðaáætl­un í loft­lags­mál­um. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rafmagnshlaupahjól, eða svokallaðar rafmagnsskútur, voru ofarlega í huga Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í erindi hans þegar ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum var kynnt í dag. Sagði hann slík tæki hafa breytt ferðavenjum mikið og að þau væru í takt við tæknibreytingar og að notkun þeirra muni vaxa í framtíðinni.

Sagði Bjarni að nú væri fólk á ferð á tækjum sem þessum um alla borg. „Gott ef fólk er ekki farið að fara milli borgarhluta og sveitarfélaga á rafknúnum hlaupahjólum að reka erindi,“ sagði hann og bætti við að gott væri að nota þessa lausn til að ná betur markmiðum um að draga úr losun kolefna.

Rafmagnshlaupahjól njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi sem og …
Rafmagnshlaupahjól njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi sem og víðar um heim. mbl.is/Hari

Bjarni boðaði einnig aukið samstarf með atvinnugreinum landsins til að ná markmiðum um að draga úr losun og tiltók sérstaklega að komið hefði ákall frá sjávarútveginum um að ná árangri í orkuskiptum. Sagði hann að horfa ætti til samstarfs þar og ekki endilega notast við „refsivönd“ heldur að horfa á málið þannig að hægt sé að leysa það saman.

Í tilkynningu sem birt er á vef Stjórnarráðsins um fundinn í dag segir Bjarni ennfremur: „Við erum að ná alþjóðlegum skuldbindingum okkar og gott betur – ekki með því að leggja strangar kvaðir á heimilin og atvinnulífið heldur með fjölbreyttri flóru aðgerða sem ná víða um samfélagið og ýta undir þá þróun sem þegar á sér stað í átt að loftslagsvænna hagkerfi. Framreikningar á losun draga fram að aðgerðir stjórnvalda og tækniþróun hafa nú þegar leitt til þess að losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka á næstu áratugum, en með aðgerðaáætluninni er lagður grunnur að enn meiri árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert