„Búið að henda okkur í ruslið“

Ljósmynd/Emil Georgsson

„Mér líður eins og orðið hafi flugslys“, skrifar Sigurlaug Halldórsdóttir í pistli á Facebook-síðu sinni. Í gær, föstudag, var Sigurlaugu, ásamt öllum öðrum flugfreyjum og flugþjónum í Icelandair, sagt upp eftir að kjaraviðræðum Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands var slitið. Hún hafði starfað hjá félaginu frá árinu 1977.

Hún segir að 17. júlí hafi verið sorgardagur í íslenskri flugsögu. „Stéttarfélög urðu til í kjölfar iðnbyltingarinnar um miðja nítjándu öld, þegar vélar fóru að koma í stað mannafls og vernda þurfti kjör launaþega hjá ört vaxandi stórfyrirtækjunum,“ skrifar hún. „Við iðnbyltinguna fór mannskepnunni nefnilega fyrst að hnigna í formi minni samkennda og skeytingaleysis í garð annarra.“

Skila einkennisfötum í næstu viku

Telur hún að stéttarfélög hér á landi hafi verið öflug hingað til, og nefnir í því samhengi verkfall Eflingar í maí síðastliðnum.

„Ég velti því fyrir mér fyrir hverju verkalýðsfélög eru að berjast, ef stórfyrirtæki geti bara sturtað þeim ofan í klósettið si svona, hugnist þeim svo.“

Sigurlaug segist hafa gefið Icelandair mikið, komið fram í auglýsingum og á viðburðum launalaust, og var ein af þeim sem gáfu félaginu 10% af tekjum sínum í júní og júlí. „Nú er hins vegar búið að henda okkur í ruslið.“

„Okkur er gert að skila einkennisfötum okkar í næstu viku... erum rétt að kyngja uppsögninni. Er engin mennska hinum megin?“

Hún segir þó að uppstyttu fylgi úrhelli og að á erfiðum tímum standi fólk þétt saman. „Við erum Icelandair þegar öllu er á botninn hvolft!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert