Endurskoða skilti um Sigríði

Umhverfisstofnun segir að textinn muni sæta endurskoðun.
Umhverfisstofnun segir að textinn muni sæta endurskoðun. mbl.is/Eggert

Umhverfisstofnun segir fjarveru nokkurra skilta við Gullfoss, sem fjarlægð voru yfir sumartímann, geta skýrt upplifun gesta þess efnis að baráttu Sigríðar Tómasdóttur frá Brattholti hafi þar verið gert lágt undir höfði. Texti upplýsingaskiltisins muni þó sæta endurskoðun.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, vakti athygli á því í gær að ekki hefði verið minnst einu orði á baráttu Sigríðar gegn því að Gullfoss yrði virkjaður á upplýsingaskilti stofnunarinnar sem stendur við fossinn.

„Vegna frétta og umræðu um skilti við Gullfoss og meintan skort á mikilvægum upplýsingum um umhverfissinnann Sigríði frá Brattholti vill Umhverfisstofnun, umsjónaraðili hins friðlýsta svæðis, taka fram að baráttu Sigríðar gegn virkjun fossins er að jafnaði getið í ýmsum upplýsingum sem lesa má á skiltum við fossinn,“ segir í tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar.

Vegna framkvæmda á efri stíg og við útsýnispall við Gullfoss hafi aftur á móti nokkur skilti verið tekin niður tímabundið yfir sumarið. Það kunni að skýra „upplifun sumra gesta að samhengi upplýsinga sé ábótavant og að Umhverfisstofnun sýni ekki ævistarfi Sigríðar þá virðingu sem hún á skilið“.

Benda á skilti á gestastofu

Bendir þá Umhverfisstofnun á skilti í gestastofu Gullfoss þar sem m.a. stendur: 

„Barátta Sigríðar fyrir fossinum var ósérhlífin og einstök. Hún lagði oft nótt við dag til að fylgja máli sínu eftir, fór í langferðir yfir fjallvegi, óð stórár á hvaða tíma árs sem var og átti marga fundi með embættismönnum í Reykjavík. Vegna þessarar baráttu hefur Sigríður oft verið nefnd fyrsti umhverfissinni Íslands.“

Að lokum segir í tilkynningu stofnunarinnar að hún þakki vinsamlegar ábendingar um texta á einu skiltanna sem hverfist nokkuð ítarlega um útlit Sigríðar. Muni sá texti sæta endurskoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert