Of snemmt að fagna árangri aðgerða

Víðir og Þórólfur brýna á tveggja metra reglunni.
Víðir og Þórólfur brýna á tveggja metra reglunni. Ljósmynd/Lögreglan

Of snemmt er að fagna árangri þeirra hertu aðgerða sem gildi tóku í síðustu viku þrátt fyrir að aðeins þrjú ný innanlandssmit hafi greinst í gær.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna, en hann segir viðbúið að fjöldi nýsmita sveiflist á milli daga.

Tveir þeirra þriggja sem greindust með kórónuveirusmit í gær voru í sóttkví og segir Þórólfur það ánægjulegt að sjá. Enn er unnið að raðgreiningu og smitrakningu vegna smitanna, en þau greindust öll á höfuðborgarsvæðinu.

81 innanlandssmit hefur greinst frá 15. júní og eru flest rakin til íslenskra og erlendra ferðamanna, fyrir utan hópsýkingu sem ekki vitað hvaðan kom. Einn er á Landspítala en enginn á gjörgæslu.

Mikilvægt að takmarka fjölda ferðamanna

Talsverður fjöldi sýna var tekinn við landamæri Íslands í gær og segir Þórólfur helsta áhyggjuefnið þessa stundina mikinn fjölda farþega sem eru að koma til landsins.

Fjöldi farþega sé kominn yfir greiningargetu og segir Þórólfur stjórnvöld vera að skoða leiðir til að takmarka komu ferðamanna til að hægt sé að anna skimun. Skimun hafi sannað gildi sitt og mikilvægt sé að halda áfram og lykilatriði sé að takmarka fjölda ferðamanna.

Loks sagði Þórólfur að ekki þætti ástæða til að grípa til hertari aðgerða en gert var í síðustu viku, en að staðan sé endurmetin daglega.

Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna.
Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert