Á „bólakaf“ í Kaldaklofskvísl til að ná bílnum upp úr

Bíllinn fastur í ánni.
Bíllinn fastur í ánni. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Björgunarsveitum frá Hellu og Hvolsvelli tókst að ná bifreið sem festist í Kaldaklofskvísl að Fjallabaki í morgun upp úr ánni í hádeginu. Fara þurfti undir bílinn til að festa við hann kaðal svo að draga mætti bifreiðina upp úr ánni. 

Ökumaður bifreiðarinnar hafði verið á þaki hennar í um tvær klukkustundir þegar björgunarmenn komu að. Bifreiðin var þá farin að grafast niður og mátti því ekki tæpara standa að bjarga manninum. 

Jónas Guðmundsson, verkefnisstjóri slysavarna hjá Landsbjörg, segir að um erlendan ökumann hafi verið að ræða. Maðurinn var á jeppa sem „á flestum dögum hefði farið þarna léttilega yfir“, segir Jónas, en vegna rigninga hefur vaxið mikið í ám á hálendinu. 

„Það tók einhvern tíma að ná bílnum upp úr, maður þarf að fara á bólakaf undir svo það er ekki auðvelt að komast að þessu. Einhver þarf að fórna sér og fara undir bílinn til að festa kaðalinn. Það er mikið í þessari á, það eru bara örfáir dagar síðan það var fært á jepplingum yfir hana en núna er þetta bara fyrir breytta bíla og vana menn,“ segir Jónas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert