Hlaup er ekki hafið í Grímsvötnum

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

GPS-gögn frá Grímsvötnum benda ekki til þess að hlaup sé hafið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

GPS-gögnin eru aftur farin að sýna hækkun á íshellunni. Mælingar við Gígjukvísl, þar sem vatn frá Grímsvötnum kemur fram undan jökli, sýnir að rafleiðni og vatnshæð er eðlileg miðað við árstíma. Ekki hefur orðið vart við hlaupóróa á jarðskjálftamælum.

„Vísindaráð almannavarna kom saman í gær þar sem GPS gögn frá yfirborði íshellunnar sýndu að hellan hafði hætt að rísa, sem getur verið merki um að hlaup sé hafið. Hellan hóf að rísa að nýju seint í gær. Að öllu jöfnu rís íshellan nokkuð stöðugt á þessum árstíma. Ekki er hægt að fullyrða á þessu stigi hvað veldur þessum sveiflum í mælingum,“ segir í tilkynningunni.

Sérfræðingar Veðurstofunnar gera ráð fyrir að fara í eftirlitsflug á morgun með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Gerðar verða gasmælingar við Grímsvötn ásamt því að kanna ástand mælitækja á staðnum, en Veðurstofan er með fjölmörg mælitæki sem vakta Grímsvötn allan sólarhringinn.

Eftirlit með Grímsvötnum hefur verið aukið þar sem vatnsstaða er há og búast má við að þau hlaupi á árinu. Jarðeðlisfræðilegar mælingar benda auk þess til að það styttist í gos.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs geti hleypt af stað gosi. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. 

Vísindaráð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra fundaði um stöðuna í Grímsvötnum fyrr í sumar og setti fram sviðsmyndir sem eru enn þá í gildi. Fundi vísindaráðs almannavarnadeildar sem halda átti í morgun var frestað í ljósi nýjustu upplýsinga.

Eðlileg hegðun 

„Við sjáum engin frekari merki um hlaup, eins og við vorum að búast við að sjá,“ segir Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. „Þetta er eðlileg hegðun, en við vitum ekki alveg hvað olli þessum truflunum og þess vegna verður þetta flug á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert