Fann ekki til sektar og hélt rekstrinum áfram

Árni Hafstað, eigandi Microbar.
Árni Hafstað, eigandi Microbar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Microbar við Vesturgötu í Reykjavík hefur verið opnaður á nýjan leik eftir að hafa verið lokaður í tæpa viku.

Árni Hafstað, eigandi staðarins, segir að ástæðan tengist ekki erfiðleikum vegna kórónuveirunnar heldur var hann ekki með tilskilin leyfi.

Enginn vissi um framkvæmdirnar

Hann sótti um endurnýjun á rekstrarleyfi í janúar en í febrúar barst honum tilkynning um að byggingarfulltrúi legðist gegn henni. Hann fékk þó bráðbirgðaleyfi sem átti að renna út í maí.

Ástæðan sem var gefin upp fyrir því að lagst var gegn endurnýjun rekstarleyfis var sú að lokaúttekt á húsnæðinu, Vesturgötu 2, hefði ekki farið fram vegna framkvæmda þar árið 2002. Leigusali Árna kvaðst ekkert vita um framkvæmdirnar þegar hann spurði út í þær, enda tók hann húsnæðið á leigu árið 2012.

Bráðabirgðaleyfið rann svo út í miðjum kórónuveirufaraldri í maí þegar staðurinn var hvort sem er lokaður. Þegar dró úr tíðni kórónuveirusmita hérlendis gátu allir barir opnað á nýjan leik. Árni opnaði eins og aðrir en síðan kom í ljós að í Ölgerðin vildi ekki afgreiða hann þar sem var ekki með tilskilin leyfi.

Microbar.
Microbar. Ljósmynd/Gæðingur ÖL

„Mér fannst þetta fáránlegt“

Árni ákvað þó að halda áfram rekstri staðarins. Honum fannst út í hött að vera settur í þessa stöðu „að hysja upp um byggingafulltrúa frá 2002“. „Mér fannst þetta fáránlegt og ég fann ekki til sektar og hélt því rekstrinum áfram,“ greinir hann frá.

Eftir að lögreglan kom þangað í hefðbundna Covid-könnun var staðnum síðan lokað vegna þess að leyfið var útrunnið. Þegar reynt var að kippa málum í liðinn voru allir í sumarfríi og því gat hann ekki opnað staðinn strax aftur.

Fékk leyfið aftur 

Árni hafði samband við byggingafulltrúa sem ákvað þá að leggjast ekki lengur gegn endurnýjuninni á rekstrarleyfinu „enda sá hann fáránleikann í því að ég skyldi vera látinn standa í þessu“.

Núna er hann því kominn aftur með bráðabirgðaleyfi sem gildir í tvo mánuði. Árni ákvað að nota tímann þegar staðurinn var lokaður til að koma með nýjungar og ætlar hann á næstunni að bjóða upp á einfaldar kynningar á vínum og viskíi. „Meðan maður lá í rotinu gerðist eitthvað í kollinum á manni.“

Enn er þó óljóst hvaða framkvæmdir fóru fram í húsinu árið 2002. Lokaúttekt á húsnæðinu hefur því ekki farið fram en það er í vinnslu, að sögn Árna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert