Myndir af vinkonunum tengist ekki kostun

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir .
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir . mbl.is/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Ég ætlaði ekki að tjá mig neitt frekar um s.l. laugardag, en get ekki orða bundist þar sem rangfærslur birtust á flestum fjölmiðlum í dag“, skrifar Eva Laufey Kjaran, fjölmiðlakona, matarbloggari og áhrifavaldur, á Facebook um vinkvennaferð sem hún, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og fleiri fóru í um helgina og hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Eva Laufey segir að myndir sem birtust á samfélagsmiðlum af vinkonunum í ferðinni tengist ekki samstarfi hennar við Nordica, en eins og fram kom í fjölmiðlum í morgun var ferðin að hluta til kostuð. Ráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar sem og Eva Laufey hafa sagt að Þórdís Kolbrún hafi greitt fyrir sinn hluta ferðarinnar sjálf. 

Hefur Þórdís Kolbrún verið gagnrýnd fyrir að fara í slíka ferð á sama tíma og kórónuveirusmitum hefur fjölgað hérlendis. 

„Við hittumst átta vinkonur, fórum í bröns, löbbuðum um miðbæinn og kíktum í búðir, fórum á hótel þar sem við fórum í spa og borðuðum kvöldmat. Að því loknu fóru þær sem búa á höfuðborgarsvæðinu til síns heima“, skrifar Eva Laufey. 

Segist skýr í sínu samstarfi

Eva Laufey rekur atburðarás ferðarinnar í Facebook-færslunni. Vinkonurnar snæddu á veitingastaðnum KOL í hádeginu þar sem þær fóru í dögurð (e. brunch). „Þar greiddi hver og ein fyrir sig og var á engan hátt tengdur samstarfi“, skrifar Eva Laufey.

„Ég hef blessunarlega alltaf verið kýrskýr þegar ég vinn fyrir önnur fyrirtæki og merki það með réttum hætti. Þær myndir sem birtar voru af okkur vinkonunum tengjast samstarfinu ekki á neinn átt og höfðu þær engu hlutverki að gegna í verkefni mínu fyrir Nordica.“

Eva Laufey segir það áhyggjuefni þegar fjölmiðlar fari með rangt mál. „Eins og alltaf er öllum velkomið að hafa samband. Það hefur engin gert nema Stundin og því er afar sérstakt að fjölmiðlar taki upp á því að fara með rangfærslur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert