Þetta er enginn barnaleikur

„Börn eru heyrð. Nú er hlustað á börn og þau …
„Börn eru heyrð. Nú er hlustað á börn og þau fá nú betri aðgang að dómurum. Nú eru dómarar upplýstir um það að ekki sé hægt að taka ákvarðanir um líf barns án þess að hafa talað við barnið ef það er hægt,“ segir mannréttindalögfræðingurinn Regína Jensdóttir sem unnið hefur að mannréttindum evrópskra barna í áratug. mbl.is/Ásdís

Lögfræðingurinn Regína Jensdóttir sérhæfir sig í mannréttindum barna í Evrópu, en vandamálin eru víða og mörg börn verða fyrir mannréttindabrotum og ofbeldi. Regína vinnur að ýmsum breytingum til að styrkja löggjöf 47 aðildarríkja Evrópuráðsins og telur hún afar mikilvægt að raddir barna fái að heyrast. Regína segir íslenska Barnahúsið vera gullmola sem mætti kynna víðar.

Regína leiðir blaðamann í allan sannleikann um þau fjölmörgu verkefni sem þarf sífellt að vinna að til þess að tryggja almenn mannréttindi um 150 milljóna barna í Evrópu. Ekki lítið verkefni það en Regína er greinilega á réttri hillu og ástríðan fyrir starfinu leynir sér ekki. Á áratuga ferli hefur hún séð margt breytast til batnaðar þó að verkefnin séu óþrjótandi og breytist sífellt, sérstaklega á tímum mikilla tæknivæðinga.

Barnavænir dómstólar

Eftir sjö ára starf við verndun tungumála og menningu minnihlutahópa var Regína gerð að yfirmanni einkamálaréttadeildar Evrópuráðsins og tók svo einnig við deild opinberra mála. Þar starfaði hún við gerð alþjóðasamninga, persónuvernd, löggjöf, dómstóla og margt fleira.

„Á því tímabili byrjaði ég að skrifa tilmæli um barnavæna dómstóla. Þá kviknaði áhuginn á réttindum barna. Á þessum árum skrifaði ég nýjan endurbættan samning um ættleiðingu barna. Þessi tilmæli um barnavæna dómstóla hafa haft mikil áhrif á 47 aðildarríki Evrópuráðsins hvað varðar réttindi barna sem þurfa að fara fyrir dómstóla. Þau hafa breytt öllu lagakerfinu í Evrópuráðsríkjunum. Ég skrifaði líka um réttindi barna til þjóðernis, sem var mikið vandamál á þeim tíma og er það enn í dag. Ég og mínar nefndir höfum skrifað mikið af nýrri löggjöf varðandi réttindi barna,“ segir Regína sem var svo ráðin yfirmaður barnaréttardeildar Evrópuráðsins og samhæfingarstjóri. Þar hefur hún nú starfað í yfir áratug.

Regína skipulagði barnaréttaráðstefnu Evrópuráðsins í nóvember 2019. Adrien Taquet, barnamálaráðherra …
Regína skipulagði barnaréttaráðstefnu Evrópuráðsins í nóvember 2019. Adrien Taquet, barnamálaráðherra Frakklands, heldur framsögu. Ljósmynd/Candice Imbert, Council of Europe

„Ég þróa mín eigin verkefni og er með mínar eigin nefndir, eins og eftirlitsnefnd sem heitir Lanzarote-nefndin sem fylgir eftir Evrópuráðssamningi um verndun barna gegn kynferðislegu ofbeldi sem og nýrri stýrinefnd um réttindi barna sem þróar ný tilmæli fyrir ríkin okkar til að styrkja mannréttindi barna. Svo stýri ég þróunarverkefnum þar sem ég hjálpa ríkjum að styrkja sína löggjöf sem varða réttindi barna.“

Regína segir margt hafa breyst til batnaðar í gegnum vinnu hennar og hennar fólks.

„Börn eru heyrð. Nú er hlustað á börn og þau fá nú betri aðgang að dómurum. Nú eru dómarar upplýstir um það að ekki sé hægt að taka ákvarðanir um líf barns án þess að hafa talað við barnið ef það er hægt,“ segir Regína og nefnir að börn geti þurft að koma fyrir dóm vegna skilnaðar foreldra, þegar þau hafa sjálf brotið af sér eða séu fórnarlömb sjálf.
„Þetta skiptir miklu máli fyrir réttindi barnsins. Í dag tölum við um mannréttindi barna en ekki eins mikið um barnaréttindi. Þau hafa sömu mannréttindi og fullorðið fólk. Áður en barnaréttasamningur Sameinuðu þjóðanna var samþykktur voru börn oft hunsuð og réttindi þeirra ekki tekin til greina,“ segir Regína og bendir á að hugsunarhátturinn hafi breyst mikið á síðustu árum.

„Það þýðir þó alls ekki að allt sé í lagi. Fólk heldur oft að starfið mitt sé alltaf svo skemmtilegt en þetta er enginn barnaleikur. Langt frá því. Þetta eru raunveruleg mannréttindabrot sem börn verða fyrir.“

Ungar stúlkur til Sýrlands

Eitt vandamál sem Evrópa stendur nú frammi fyrir er sá að tiltekinn fjöldi ungmenna hefur farið til Sýrlands í stríðið en vill svo gjarnan snúa aftur heim.

„Það eru fullt af ungum krökkum, undir lögaldri, sem hafa farið til Sýrlands. Það er mikið af ungum stelpum í Evrópu sem sjá eitthvað við það að fara til Sýrlands og berjast með ISIS. Þetta eru ósköp venjuleg börn, fjórtán, fimmtán ára, frá Belgíu, Frakklandi og líka Norðurlöndunum. Stúlkurnar eru teknar í þrældóm, þær giftar og svo eignast þær börn. Það er meiri háttar vandamál fyrir okkar aðildarríki að ákveða hvað á að gera þegar þær vilja komast heim. Þær eru undir lögaldri en það er mjög erfitt að setja þær bara aftur inn í menntaskóla, því þær eru oft flokkaðar sem afbrotamenn,“ segir Regína og bætir við að þetta sé talsverður fjöldi.

„Þessi börn hafa barist með öfgahópum og geta í raun talist hættuleg. Löndin verða að taka við þeim og þau koma oft heim með ung börn. Hvað á gera við þessi litlu börn? Þessi litlu börn hafa líka oft séð og upplifað mikið ofbeldi og það þarf að veita þeim sálfræðiaðstoð og finna örugg heimili. Það þarf að vernda réttindi þessara barna. Þetta er mikið hitamál í Evrópu,“ segir hún.

Börn í fangelsum

Er hægt að dæma barn í fangelsi?

„Það er annað heitt álitamál innan Evrópuráðsins. Sakhæfisaldur í sumum ríkjum er ofsalega lágur. Í sumum vestrænum ríkjum er hann tíu ára og á Íslandi fimmtán ára. Það er eitthvað sem við viljum láta hækka því við teljum fangelsi ekki gera börnum neitt gott. Þau eru sett í fangelsi en ættu frekar að vera á stofnunum eða heimilum þar sem hægt er að hjálpa þeim og styðja. Lagarammi þessara 47 aðildarríkja er ólíkur, sem og menning. Það er mikið hitamál; hvað eigi að gera við börn sem hafa brotið af sér. Sum börn brjóta hrottalega af sér; nauðga og jafnvel drepa. Það er kannski ekki hægt að sleppa þeim aftur út í samfélagið án þess að þeim sé hjálpað en það er ekki í samræmi við réttindi barna að setja þau í fangelsi með fullorðnum.“

Foreldraútilokun hitamál

Regína segir önnur ríki líta til Norðurlanda sem fyrirmyndar þegar kemur að réttindum barna.
„Það er mjög jákvætt en það þýðir ekki að allt sé fullkomið þar. Oft eru börn á Norðurlöndum tekin fullfljótt af heimilum og kannski jafnvel gefin upp til ættleiðingar án samþykkis foreldris, ef það er einhver grunur um andlegt eða líkamlegt ofbeldi,“ segir hún.

„Annað hitamál varðar réttarstöðu barna sem eru að ganga í gegnum skilnað foreldra. Hver þekkir ekki fjölskyldu þar sem skilnaður hefur haft langvarandi áhrif á börnin og í flestum tilfellum ef illa gengur þá er það barnið sem þarf að þola að á rétti þess sé brotið. Það er mikið vandamál í öllum ríkjunum þegar við skoðum allt ferlið og hvernig barnið er dregið í gegnum kerfið. Oft er niðurstöðum dómstóla eða sýslumanns ekki fylgt eftir og ekki virtar af hálfu annars foreldris. Það eru ofsalega lítil úrræði til staðar til að hjálpa foreldrum að gegna sínu jákvæða foreldrahlutverki í þessum tilfellum. Og þar með er alltaf verið að brjóta á réttindum barnsins,“ segir Regína.

„Það mætti til dæmis setja svona mál í sérstaka flýti- og stuðningsmeðferð því þessi mál eru flókin og erfið. Svokölluð foreldraútilokun er algjörlega óásættanleg en einnig umdeild,“ segir Regína og segir það ótvíræðan rétt barna að rækta tengsl við báða foreldra og fjölskyldur þeirra. 

Kynferðisofbeldi á netinu faraldur

„Í tilfellum þar sem grunur leikur á kynferðisofbeldi er ofsalega jákvætt að hafa Barnahús, eins og við höfum á Íslandi. Íslenska Barnahúsið er algjör fyrirmynd og mín deild vinnur að því að koma á slíkum húsum í öðrum ríkjum. Ég er með verkefni í Slóveníu, Moldóvu, Úkraínu og víðar. Við erum að hjálpa þessum ríkjum að breyta löggjöfinni og undirbúa að Barnahús verði opnað,“ segir Regína og útskýrir að Lanzarote-nefndin vinni að þessum málum.

„Íslenska Barnahúsið var það fyrsta sem var stofnað í Evrópu og var það unnið að bandarískri fyrirmynd, frá Alabama. En í Bandaríkjunum eru dómstólar ekki hluti af kerfinu, en hér er unnið með bæði dómstólum og félagsmálayfirvöldum. Það vinna allir saman í kringum barnið. Þetta gjörbreytir algjörlega hvernig hugsað er um fórnarlömb kynferðisofbeldis,“ segir Regína og segir Barnahúsin hafa reynst ákaflega vel.

„Tuttugu prósent barna lenda í kynferðislegu ofbeldi, og ég hugsa jafnvel að talan sé hærri. Netið hefur breytt því hvernig hægt er að hafa aðgang að börnum. Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í gegnum netið er gjörsamlega að valta yfir allt. Þetta er faraldur í heiminum í dag. Fullorðið fólk er að ná í börn á netinu til þess að láta þau fækka fötum og senda myndir af sér. Þetta er oft alveg hrikalegt því þessar myndir hverfa aldrei. Glæpahringir eru að nota þessar myndir en þetta eru milljónir mynda á dag. Við vinnum mikið með Europol og Interpol að finna lausnir á þessum faraldri, en myndirnar eru oft á Darknet, Deepnet, á netinu, á samfélagsmiðlunum og fleiri stöðum. Í Bandarikjunum einum árið 2018 voru 18,5 milljónir mynda tilkynntar inn sem myndir af kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og það er einfaldlega ekki hægt að horfa fram hjá þessu. Þetta eru börn á öllum aldri, alveg niður í nýfædd. Helstu afbrotamennirnir virðast vera í Evrópu og Bandaríkjunum en fórnarlömbin eru úti um allt. Við megum ekki gleyma að bak við hverja einustu mynd er fórnarlamb.“

Rödd barna skiptir máli

„Mín helstu málefni þessa dagana eru að vinna gegn ofbeldi á börnum og erum við að styrkja aðildarríkin til að koma í veg fyrir ofbeldi með því til dæmis að banna líkamlegar refsingar inni á heimilum, stofnunum og skólum. Það eru langt frá því öll ríki sem bannað hafa líkamlegar refsingar inni á heimilum. Það er bardagi sem við þurfum að halda áfram að taka. Það er bara nýlega sem Frakkar innleiddu þessi lög og var það mikill sigur fyrir okkur, en það voru miklar deilur í kringum það í Frakklandi. Við lendum oft í átökum þegar ríki búa til löggjöf sem í raun segir foreldrum hvernig þau eigi að taka á sínu heimilislífi og ala upp sín börn.“

Ef þú horfir yfir síðasta áratug, hvað hefur áunnist í mannréttindum barna? Hverju ert þú stoltust af?

„Mér finnst án nokkurs vafa ótrúlegt hvað Barnahúsið hefur haft mikil áhrif. Evrópuráðið hefur haft áhrif á það að þessi 47 ríki skilji út á hvað þetta gangi og skilji hversu mikilvægt það sé að hlustað sé á öll börn sem verða fyrir ofbeldi. Það hefur haft mikil áhrif og Lanzarote-samningurinn styður þessa hugmynd. Þessi samningur hefur gjörbreytt hvernig löggjöf ríkja passar upp á að börn verði ekki fyrir kynferðislegu ofbeldi og hvað á að gera þegar það gerist. Barnahús er algjör gullmoli og er í raun ein flottasta útflutningsafurð Íslands. Nokkuð sem fæstir vita af,“ segir hún og bætir við að íslenska starfsfólk Barnahúss hefur ferðast víða að kynna sína starfsemi og hefur Barnahúsmódelið vakið athygli víða um heim.

„Kynferðislegt ofbeldi á börnum í gegnum netið er gjörsamlega að …
„Kynferðislegt ofbeldi á börnum í gegnum netið er gjörsamlega að valta yfir allt. Þetta er faraldur í heiminum í dag,“ segir Regína. mbl.is/Ásdís

Regína er í góðum tengslum við umboðsmann barna, Salvöru Nordal, félags- og barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason, starfsfólkið í Barnahúsi og Braga Guðmundsson sem situr í barnarréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Regína segir það mikinn heiður fyrir Ísland að eiga þar fulltrúa og segir Braga hafa unnið ötult starf í þágu barna um langt skeið.

„Mér finnst alltaf gott að vinna með þessum helstu aðilum sem styðja við réttindi barna á Íslandi og ég er alltaf til staðar ef þau þurfa á mér að halda og öfugt.“

Annað sem Regína segir standa upp úr þegar hún horfir til baka er breyting í hugsunarhætti.
„Mér finnst jákvætt að sjá þessa breytingu í hugsunarhætti fólks að börn séu með mannréttindi og séu ekki eign foreldra sinna.“

Ítarlegt viðtal er við Regínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert