Safna undirskriftum gegn sóttkví

Mynd úr safni af komufarþegum í Leifsstöð.
Mynd úr safni af komufarþegum í Leifsstöð. mbl.is/Árni Sæberg

Jó­hann­es Lofts­son, formaður Frjáls­hyggju­fé­lags­ins, er ábyrgðarmaður undirskriftalista gegn sóttkví allra þeirra sem koma hingað til lands. Undirskriftasöfnunin fór af stað fyrr í dag og hafa 100 undirskriftir safnast þegar þetta er skrifað.

„Við undirrituð mótmælum þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja alla sem til Íslands koma í sóttkví og viðbótarskimun, burtséð frá því hvort fólk er smitað eða ekki,“ segir í rökstuðningi með undirskriftasöfnuninni.

Jóhannes setti inn færslu um söfnunina á Facebook-hópinn Bakland ferðaþjónustunnar í dag og er hún þar mjög umdeild. Ýmist styður fólk málflutning Jóhannesar eða hafnar honum algjörlega og segir að sóttvarnasjónarmið eigi að ráða ferðinni.

Aðgerðirnar miða að því að færri smit komist í gegn

Fyrr í ágúst var reglum á landamærum breytt með þeim hætti að allir sem hingað koma þurfa að fara í tvær skimanir fyrir kórónuveirunni með nokkurra daga sóttkví á milli. Var þetta gert í þeim tilgangi að fækka smitum sem berast hingað til lands. 

Jóhannes telur að seinni skimun muni bera lítinn árangur en valda óásættanlegum skaða.

„Aðgerðin mun orsaka atvinnuleysi tugþúsunda Íslendinga með tilheyrandi efnahagslegum hamförum af mannavöldum. Við krefjumst því þess að yfirvöld falli frá þessari skaðlegu stefnu og beiti aðeins sóttvarnaaðgerðum sem hægt er að viðhalda til langs tíma án þess að valda óbætanlegu samfélagstjóni,“ segir í texta sem undirskriftasöfnuninni fylgir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert