Munu birta fleiri Kristsgervinga

Frá kirkjuþingi sem hófst í dag.
Frá kirkjuþingi sem hófst í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samskiptastjóri þjóðkirkjunnar segir að á næstunni muni kirkjan kynna fleiri Kristsgervinga til sögunnar. Myndbirting af Kristi með brjóst og andlitsfarða vakti mikla athygli nýverið og fjallaði mbl.is um málið.

Kirkjuþing hófst síðdegis í dag og mun standa fram yfir helgi. Þar sem ekki náðist að klára framhaldsfund kirkjuþings í fyrra sem frestaðist í vor vegna kórónuveirunnar, verður að ljúka þeim fundi fyrst. Það verður gert í dag og á morgun og mun hið eiginlega kirkjuþing ársins 2020 fara fram um helgina.

Biskup Íslands leggur fram tillögu á þinginu þar sem stjórnvöld eru hvött er til endurskoða lagaumhverfi um hælisleitendur og flóttafólk.

Pétur Markan, samskiptastjóri þjóðkirkjunnar, segir í samtali við mbl.is að það sem uppúr standi á framhaldsfundi kirkjuþings væri líklega sameining sókna, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Svipað og sameining sveitarfélaga

„Þetta er í raun ekkert ósvipað og þegar sveitarfélög eru sameinuð,“ segir Pétur. „Það er einfaldlega verið að styrkja sóknir sem hægt er að sameina og skapa öflugri einingar innan kirkjunnar með því. Þjónusta þeirra sókna við sín sóknarbörn mun því bara verða betri.“

Margir slegnir í fyrstu

Spurður um stóra Jesú-málið segir Pétur að hann telji að margir hafi fyrst verið slegnir vegna málsins en síðan hugleitt málið og komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að þjóðkirkjan fagni fjölbreytileika mannfólks. 

„Þetta er gott dæmi um hvað það er hollt að iðka guðfræðiumræðu og umræðu um Kristsgervinga. Við munum á næstunni kynna fleiri Kristsgervinga þar sem til að mynda má sjá Jesú taka til hendinni í umhverfismálum. Við vitum þó að ekki eru allir sammála um að Kristur eigi að birtast svona og við berum auðvitað virðingu fyrir því.“

Hvetja stjórnvöld til úrbóta

Tvær tillögur sem lagðar eru fram á kirkjuþingi ársins 2020 snúa að málefnum fólks á flótta og umsækjenda um alþjóðalega vernd. Þá segir í þingsályktunartillögu Agnesar M. Sigurðardóttur biskups að starfshópur sem skipaður var um málefni flóttafólks og hælisleitenda, í nóvember 2019, leggi til að Þjóðkirkjan hvetji yfirvöld til að endurskoða núverandi kerfi um fólk á flótta, sérstaklega að Alþingi Íslendinga endurskoði lagaumhverfi sitt svo að koma megi í veg fyrir að stjórnvöld geti vísað fólki á flótta í þessum hópi úr landi án efnislegrar meðferðar á umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi.“

Þá leggur Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, til að Kirkjuþingið hvetji stjórnvöld til þess að hætta að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi án efnislegrar meðferðar. Í þingsályktunartillögu Hólabiskups segir:

 „Kirkjuþing 2020 hvetur íslensk stjórnvöld til hætta að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi án efnislegrar meðferðar hælisumsóknar, þótt þau hafi þegar hlotið hana á Ítalíu, í Grikklandi eða Ungverjalandi. Yfirvöld í þessum löndum virðast þess ekki umkomin að skapa þessu fólki mannsæmandi aðstæður og möguleika á að byggja sjálfum sér og börnum sínum örugga framtíð. Þjóðkirkjan hefur sérstakar áhyggjur af börnum í þessum hópi.

Pétur Markan segir að mikill vilji sé til þess innan kirkjunnar að kirkjan beiti sér í mannrétindamálum. Agnes og Solveig hafi látið málefni flóttamanna og hælisleitenda sig varða í embætti og muni halda áfram að gera það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert