„Vita ekki lengur hvað er rétt og rangt“

„Þeir eru ekki alveg blankir lífeyrissjóðirnir og ættu að geta hægt aðeins á hjólinu. Það er búið að láta þá fá stórar fjárhæðir,“ segir Helgi Vilhjálmsson, eigandi sælgætisgerðarinnar Góu.

Helgi birti auglýsingu í dagblöðum í dag þar sem hann bendir á hvernig hægt væri að bjarga fjölda starfa í atvinnulífinu með tímabundinni lækkun mótframlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Hann segir að um mjög háar upphæðir sé að ræða, upphæðir sem skipti máli í rekstri fyrirtækja í erfiðu árferði. Helgi bendir á hækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð síðustu ár. Í dag er mótframlagið 11,5% en var t.d. 8% árið 2016. 

Auglýsing Helga sem birtist í dagblöðum í dag.
Auglýsing Helga sem birtist í dagblöðum í dag.

„Ef við skoðum þetta nánar, þá myndi það bjarga yfir 6.500 störfum ef mótframlagið yrði lækkað aftur í 8%. Þetta eru svo stórar tölur. Bara þessi lækkun myndi lækka launakostnað fyrirtækja um 39 milljarða á ári án þess að útborguð laun myndu lækka. Það skiptir okkur núna mestu máli að finna leiðir til að lækka kostnað án þess að fólkið finni fyrir því. Atvinnuleysi er versti óvinur fólksins,“ er haft eftir Helga í fréttatilkynningu.

„Það er allt í lagi að tala saman“

Hann segir í samtali við mbl.is að ástandið í heiminum sé afar sérstakt núna og vert að láta á það reyna hvort hægt sé að finna nýjar lausnir. „Það er allt í lagi að tala saman,“ segir Helgi sem kveðst hafa fengið alls konar viðbrögð við auglýsingunni. Hann er ekki viss um að lífeyrissjóðirnir taki vel í hugmyndir sínar. „Ég held að þeir sem sjá um peninga hjá lífeyrissjóðunum séu orðnir verulega skemmdir. Þeir vita ekki lengur hvað er rétt og rangt.“ 

Hann bendir á að margir virðist hafa misst tengingu við raunveruleikann og verðmætasköpun. „Ef engir peningar koma í kassann, hvernig eigum við þá að borga laun? Það verður ekkert til ef við höfum ekki hráefni. Ég var til dæmis að fá hráefni sem ég átti að fá í mars á dögunum. Þegar ég byrjaði að vinna í Feldinum fjórtán ára gamall áttu allir kápu úr Feldinum. Og það áttu allir skáp frá Víði. Við getum ekki alltaf verið að finna upp hjólið,“ segir Helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert