„Framtíð þúsunda starfsmanna í húfi“

Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Icelandair, Bogi Nils Bogason, forstjóri …
Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Icelandair, Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála Icelandir. Samsett mynd

Vinnan undanfarna mánuði við endurskipulagningu Icelandair og hlutafjárútboðið sem fram fer í vikunni hefur „fyrst og fremst snúist um að tryggja framtíð Icelandair Group og verja störf“. Þetta kemur fram í grein þriggja stjórnenda Icelandair sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Segja þau ekki rétt að þessi vinna snúist að miklu leyti um að bjarga stjórnendum og hluthöfum félagsins. Þannig muni núverandi hluthafar bera verulega skertan hlut frá borði ef hlutafjárútboðið gangi upp og stjórnendum sé hægt að skipta út ef vilji sé til þess.

Undir greinina rita þau Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála, og Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs.

Segja þau að í yfir 83 ára sögu Icelandair og forvera þess hafi félagið staðið frammi fyrir fjölmörgum áskorunum, meðal annars fjármálahruni, eldgosi, kyrrsetningu flugvéla, offramboði á samkeppnismörkuðum og nú síðast Covid-19. Hingað til hafi félagið staðið af sér hverja rauni, en faraldurinn sé stærsta áskorunin. „Stormurinn sem geisar núna er sá mest krefjandi sem félagið og flugheimurinn hefur nokkru sinni farið í gegnum.“

Telja þau upp ýmis tækifæri fyrir félagið ef hlutafjárútboðið gangi upp, meðal annars viðskiptalíkanið þar sem Ísland er tengipunktur milli Evrópu og Norður-Ameríku. Vísað er til þess að breyting á eftirspurn eftir flugi eftir faraldurinn gæti meðal annars orðið til að fækka beinu flugi á breiðþotum yfir Atlantshafið og þar sé Icelandair í kjörstöðu. Þá sé Ísland líklegt til að verða áfram vinsæll áfangastaður eftir faraldurinn, sérstaklega þar sem hér sé meira pláss en í stórborgum.

Stjórnendurnir þrír vekja næst athygli á umsvifum Icelandair og áhrifum á samfélagið. „Yfir háannatíma félagsins 2019 voru starfsmenn félagsins um 4.500, án starfsmanna Icelandair Hotels. Vegna þeirra hefur félagið greitt, síðasta áratuginn, um 300 milljarða króna beint inn í íslenska hagkerfið að mestu í formi launa og tryggingagjalds og lífeyrissjóðsframlaga hér á Íslandi.“

Starfsemi Icelandair hefur verið í lágmarki meðan á faraldrinum hefur …
Starfsemi Icelandair hefur verið í lágmarki meðan á faraldrinum hefur staðið, líkt og hjá öðrum flugfélögum. mbl.is/Árni Sæberg

Segja þau að með jákvæðri niðurstöðu hlutafjárútboðsins geti tekist að vekja von hjá þúsundum starfsmanna um að þeir geti komið aftur til starfa. „Icelandair Group verður þá jafnframt tilbúið til að gegna lykilhlutverki í viðspyrnunni á Íslandi þegar eftirspurn ferðamanna tekur við sér. Það mun verða mjög mikilvægt fyrir þúsundir starfsmanna ferðaþjónustufyrirtækja um allt land sem sjá fram á erfiða mánuði fram undan. Þar skiptir hver dagur máli. Um þetta snýst fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair Group,“ segja þau að lokum í greininni.

Hlutafjárútboðið hefst á miðvikudaginn og lýkur á fimmtudaginn, en niðurstaða þess verður að öllum líkindum kynnt á föstudaginn.

Grein þeirra má í heild lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert