Nánast öllum flugferðum aflýst

Það er tómlegt um að litast í Leifsstöð.
Það er tómlegt um að litast í Leifsstöð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nánast ekkert flug er um Keflavíkurflugvöll í dag. Aðeins ein brottför er á vegum Icelandair en flogið var til Kaupmannahafnar nú á áttunda tímanum. Aðeins eitt flug er á vegum easyJet og eitt á vegum Air Baltic.

Á morgun verða aðeins tvær brottfarir frá Keflavíkurflugvelli, Icelandair flýgur til Kaupmannahafnar og easyJet til Luton-flugvallar í London.

Alls voru 1.614 í skimunarsóttkví hér á landi en allt frá 19. ágúst hafa farþegar sem koma hingað til lands getað valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. 

Á covid.is kemur fram að nýgengi innanlandssmita síðustu 14 daga á hverja 100 þúsund íbúa er 118,1 og á landamærunum 6,3.

Samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu er Ísland nú meðal þeirra landa þar sem flest ný smit eru á hverja 100 þúsund íbúa. Samkvæmt tölum stofnunarinnar frá því í gær eru smitin hér 123 á hverja 100 þúsund íbúa og eru þau hvergi jafn mörg annars staðar á Norðurlöndunum. Danir koma þar næstir með 120,5 smit. Flest eru smitin á Spáni 319,9 og Tékklandi. Frakkland skipar þriðja sætið með 229,1 smit. Önnur ríki í Evrópu með hærra hlutfall en Ísland eru Belgía, Holland, Lúxemborg, Ungverjaland og Malta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert