Lífskjarasamningurinn gildi áfram

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samhljóma ákvörðun framkvæmdastjórnar SA er að lífskjarasamningurinn gildi áfram. Atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna SA um uppsögn kjarasamninga fer því ekki fram.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar átti að liggja fyrir á hádegi á morgun en henni var frestað í gær. 

„Heildarkostnaður fyrirtækja á almennum vinnumarkaði vegna launahækkunar 1. janúar næstkomandi nemur 40-45 milljörðum króna á ársgrundvelli og koma aðgerðir stjórnvalda til með að milda þau áhrif. Eftir sem áður munu launahækkanirnar veikja stöðu atvinnulífsins og mörg fyrirtæki þurfa að bregðast við þeim kostnaði,“ segir í tilkynningu SA, sem var skrifuð til að bregðast við aðgerðapakka stjórnvalda sem var tilkynntur í morgun.

„Framkvæmdastjórn SA telur sættir á vinnumarkaði mikilvægar og vill stuðla að þeim. Þær verða þó  ekki keyptar á hvaða verði sem er. Verkalýðsforystan hefur því miður ekki verið tilbúin til viðræðna um aðgerðir til að bregðast við forsendubresti í atvinnulífinu.“

Fram kemur að hugmyndum SA um frestun launahækkana og lengingu kjarasamninga sem henni nemur, tímabunda lækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði og tímabundna frestun á endurskoðun kjarasamning hafi öllum verið hafnað umsvifalaust.

„Sú staða þvingaði Samtök atvinnulífsins til að leita samstarfs við stjórnvöld um mótun sameiginlegra viðbragða við gerbreyttri stöðu atvinnulífsins frá því þegar Lífskjarasamningurinn var undirritaður fyrir rúmu ári síðan. Yfirlýsingin ber vitni um sameiginlega ábyrgð SA og stjórnvalda og vilja til þess að leiða samfélagið í gegnum kreppuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert