Viðbúnaðarstig hækkað úr grænu í gult

Flogið yfir Grímsvötn. Breyting á litakóða fyrir flug þýðir ekki …
Flogið yfir Grímsvötn. Breyting á litakóða fyrir flug þýðir ekki að eldgos sé yfirvofandi, en líkur á að gos hefjist á næstu mánuðum fara hækkandi. Litakóðinn er í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og gefur flugmönnum, almenningi og flugmálayfirvöldum upplýsingar um ástand eldfjalla. Litur hverjar eldstöðvar er í stöðugri endurskoðun og er honum breytt til að endurspegla stöðuna á hverjum tíma. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Virkni í Grímsvötnum hefur farið hægt vaxandi undanfarin misseri. Því hefur Veðurstofa Íslands hækkað viðbúnaðarstig fyrir flug úr grænu í gult.

Flestar mælingar sem gerðar eru til að vakta Grímsvötn sýna meiri virkni umfram það sem skilgreint er sem bakgrunnsvirkni eldstöðvarinnar, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. 

Mælingar nú eru að nálgast þau gildi sem sáust fyrir eldgosið 2011. 

  • Skjálftavirkni síðasta mánuðinn hefur mælst vel yfir meðallagi
  • Jarðhitavirkni hefur farið vaxandi síðustu mánuði, sem sést á dýpkandi jarðhitakötlum í og við Grímsvatnaöskjuna.
  • GPS stöð á Grímsfjalli sýnar að þensla (kvikuþrýstingur) er komin að eða yfir þau mörk sem þau voru í fyrir eldgosið 2011.
  • Gasmælingar frá því í sumar benda til þess að kvika sé nálægt yfirborði.
Almannavarnir funda reglulega með Veðurstofunni og eru upplýstar um stöðu …
Almannavarnir funda reglulega með Veðurstofunni og eru upplýstar um stöðu mála. Enn sem komið er, þá hefur ekki verið talin ástæða til þess að breyta almannavarnastigi vegna Grímsvatna. Kort/Veðurstofa Íslands

„Þessu til viðbótar fer vatnshæð í Grímsvötnum ört vaxandi og er áþekk því sem hún var skömmu fyrir Grímsvatnahlaupin 2004 og 2010. Það er því líklegt að hlaup úr Grímsvötnum hefjist á næstu mánuðum. Eldgos í Grímsvötnum koma stundum í lok jökulhlaupa samfara þrýstingslétti vegna lækkunar vatnsborðs og eru því taldar nokkrar líkur á að þrýstingsléttir í vötnunum samfara jökulhlaupi komið af stað gosi. Gos gæti einnig hafist án jökulhlaups sem fyrirvara,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert