„Komið nóg af malbiki“

Stígurinn á að vera malbikaður og upplýstur og liggja í …
Stígurinn á að vera malbikaður og upplýstur og liggja í gegnum Öskjuhlíðina. Tölvumynd/Landslag

Með því að byggja upp nýjan stíg um Öskjuhlíð, sem gengur undir nafninu Perlufestin, er verið að skemma hluta borgarinnar sem enn er tiltölulega ósnortinn og er nýttur sem slíkur af hlaupa- og hjólafólki og öðrum sem vilja stunda útivist án þess að vera á malbikuðum stígum. Þetta segir Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir, hún og fleiri sem stunda þar útivist reglulega vöknuðu upp við vondan draum í vikunni þegar greint var frá því í Morgunblaðinu að Reykjavíkurborg hefði opnað tilboð í stígagerðina. Setti hún af stað undirskrifalista til að mótmæla framkvæmdum þar og hafa um 1.000 manns skráð sig.

Upplýstur malbikaður stígur ofarlega í Öskjuhlíð

Perlufestin á að vera stígur sem tengj­ast stíga­kerfi um­hverf­is Perluna og verður ofarlega í Öskjuhlíðinni. Á stígurinn að vera upplýstur og liggja frá gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar að núverandi göngustíg norðan við Perluna. Verður hann malbikaður með snjóbræðslu og verður trjágróður fjarlægður úr stígstæðinu, en grjóti og svarðlagi haldið og notað á síðari stigum verksins.

Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir.
Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Í samtali við mbl.is segir Heiðrún að aðdráttarafl Öskjuhlíðar til útivistar sé einmitt hversu hrá, dulúðleg og ævintýraleg hún er. „Það eru ofboðslega margir sem stunda Öskjuhlíðina akkúrat eins og hún er akkúrat núna vegna þess að hún er eins og hún er,“ segir hún. Þannig komi þangað hlauparar sem vilji aðeins komast af malbiki, fjallahjólafólk og víðavangshlauparar svo einhver dæmi séu nefnd.

Skemmir upplifun og aðstöðu í Öskjuhlíð

„Að okkar mati, sem stundum Öskjuhlíðina, þá er komið nóg af malbiki og inngripi,“ segir Heiðrún. Hún segir þá tillögu sem unnið hafi verið eftir vera mjög flotta og metnaðarfulla, en á sama tíma muni hún skemma upplifun og aðstöðu þeirra sem nýti Öskjuhlíðina til útivistar í dag.

Þannig segir Heiðrún að með því að malbika þvert í gegnum hlíðina sé skemmt mikið af slóðum og stígum sem nú fari þar í gegn. Þá nefnir hún að í tillögunum sé jafnvel horft til þess að gera svokallaðan himnastiga frá Háskólanum í Reykjavík og upp að Perlu, en slíkt myndi slíta mjög upp núverandi notkunarmöguleika. „Það er algjör þyrnir í okkar augum.“ Bendir hún á að þegar sé stígur frá leikskóla Hjallastefnunnar upp að Perlu sem sé malbikaður.

Hugmyndir sem erfitt er að samræma

Ein af ástæðum þess sem nefndar hafa verið fyrir lagningu stígsins er að bæta aðgengi fyrir alla, meðal annars fólk í hjólastól og fjölskyldur með barnavagna. Heiðrún segir að spyrja þurfi sig samt hvert eigi að fara með slíka hugmyndafræði. „Eigum við að gera allt hjólastólavænt?“ spyr hún og vísar til þess að illa gangi að samræma hugmyndir um slíkt aðgengi með malbiki og tilheyrandi og svo að hafa hráa og tiltölulega ósnortna náttúru. „Ég tek fram að þetta hljómar mjög hrokafullt,“ segir Heiðrún en bætir við að velta þurfi þessum spurningum fyrir sér.

Öskjuhlíðin hefur verið vinsæl meðal útivistarfólks, bæði hlaupara og fjallahjólreiðafólks.
Öskjuhlíðin hefur verið vinsæl meðal útivistarfólks, bæði hlaupara og fjallahjólreiðafólks. mvbl.is/Golli

„Hvað yrði sagt ef það ætti að malbika ríkishringinn í Heiðmörk?“

Segist hún horfa svipuðum augum á stígana og slóðana í Öskjuhlíð og stíga í Heiðmörk og við Vífilstaðahlíð. „Hvað yrði sagt ef það ætti að malbika ríkishringinn í Heiðmörk?“ spyr hún og segir það hluta af aðdráttaraflinu að staðirnir séu hráir og villtir. Segir hún að þrátt fyrir að finna megi slíka staði í útjaðri höfuðborgarsvæðisins sé Öskjuhlíðin eini staðurinn sem bjóði upp á þetta inn í borginni. Þannig yrði mjög langt fyrir fólk t.d. í Vesturbænum eða á Seltjarnarnesi að komast í slíkar náttúruperlur ef upplifunin væri eyðilögð í Öskjuhlíð. Segir hún Öskjuhlíðina það litla að upplýstur malbikaður stígur muni alltaf taka óbyggðarupplifunina í burtu.

Spurð hvers vegna ekkert hafi verið aðhafst í málinu fyrr en í þessari viku, þegar tilboð í framkvæmdina voru opnuð, segir Heiðrún að hún og allir þeir sem hún hafi talað við hafi hreinlega ekki vitað af þessum hugmyndum. Um sé að ræða hönnunarkeppni sem fram fór árið 2013 og hún viti ekki til þess að hagsmunaaðilum sem tengjast hlutum eða hjólreiðum, sem séu með virkustu notendum svæðisins, hafi verið boðið að vera með í samtalinu um þessar hugmyndir.

Stígurinn mun koma til með að bæta verulega aðgengi fyrir …
Stígurinn mun koma til með að bæta verulega aðgengi fyrir alla að útivistarsvæðinu í Öskjuhlíð samkvæmt Reykjavíkurborg. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Funda með fulltrúum borgarinnar í vikunni

Hún hefur þó, ásamt fulltrúa úr hópi hlaupara, fengið fund með borginni í komandi viku og segist hún bjartsýn á að hann skili einhverju og að hægt verði að fara einhverja málmyndaleið.

Þegar þetta er skrifað hafa rétt tæplega 1.000 manns skrifað undir þar sem mótmælt er lagningu stígsins á vefnum island.is

Meðal annars er horft til þess að hafa áningastaði á …
Meðal annars er horft til þess að hafa áningastaði á Perlufestinni. Tölvumynd/Landslag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert