Getum beygt veiruna en ekki upprætt hana

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur Kastljóss í kvöld.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur Kastljóss í kvöld. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur Kastljóss í kvöld þar sem hann sagði að hann héldi að kórónuveirubylgjan, sem nú gengur yfir, yrði erfiðari viðureignar en sú fyrsta. Veiran sé dreifðari og því geti verið erfiðara að uppræta hana með sama hætti og gert var í vor. Hann segir skiljanlegt að fólk sé orðið þreytt á veirunni en minnir á að Íslendingar hafi átt frjálslegra sumar en margar aðrar þjóðir.

Það má dæma af orðum sóttvarnalæknis í Kastljósi að ekki verði hægt að útrýma veirunni úr samfélaginu líkt og gert var í fyrr bylgjunni. Veiran sé dreifðari og erfiðari viðfangs.

Erfiðara nú en í vetur

„Ég held að þessi bylgja núna verði erfiðari en bylgjan fyrr í vetur og ég byggi það á því að fyrsta bylgjan var allt öðruvísi, hún kom miklu hraðar inn með stórum förmum í flugvélum af fólki sem var að koma úr Ölpunum. Í vetur vorum við fyrst og fremst að sjá smit innan fjölskyldna og þá náðum við þeim hópum tiltölulega fljótt í sóttkví. Það náðist að stoppa þá bylgju af miklu fyrr.

Núna er þessi veira búin að hreiðra um sig miklu víðar. Hún er svona að skjóta upp kollinum hér og þar, mest hérna á höfuðborgarsvæðinu en líka úti á landi, þannig að ég held að það verði erfiðara að ná utan um hana.

Ég held að við getum beygt hana niður en ég er ekki svo viss um að við getum upprætt hana eins og við gerðum síðastliðinn vetur en ég vona svo sannarlega að það sé ekki rétt hjá mér og við náum því,“ sagði Þórólfur.

„Ég hef sagt það og haldið því fram að vonandi sæjum við bara svona litlar sveiflur í faraldrinum en það hefur svo sannarlega ekki reynst vera rétt,“ sagði Þórólfur þegar hann var spurður hvort aðstæðurnar núna væru ekki akkúrat þær sem vonast var til að myndu ekki skapast.

Almenningur verði að „spila með“

Þórólfur segir að hann finni nú aukinn meðbyr í þjóðfélaginu líkt og var í fyrstu bylgju þegar almenningur virtist taka virkari þátt í þeim sóttvarnaaðgerðum sem giltu. Hann segir það hlutverk sóttvarnayfirvalda, og þar með hlutverk sitt, að fá almenning með í lið til þess að ráða niðurlögum veirunnar.

„Ef fólk spilar ekki með og tekur þessu ekki alvarlega þá munum við ekki ná árangri. Það er alveg öruggt mál. Allir vilja bara fá gamla lífið sitt aftur,“ sagði Þórólfur um viðbrögð margra við þeim hertu aðgerðum sem tóku gildi í gær. „Fólk er orðið þreytt á þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert