Hagrænn ábati af borgarlínu 26 milljarðar

Svona á leiðarkerfi borgarlínunnar að líta út árið 2034.
Svona á leiðarkerfi borgarlínunnar að líta út árið 2034. Kort/Verkefnastofa borgarlínu

Fyrsta lota borgarlínunnar, sem til stendur að taka í gagnið árið 2024, er þjóðhagslega hagkvæmt verkefni. Þetta sýnir félagshagfræðileg greining verkfræðistofunnar Mannvits og danska ráðgjafarfyrirtækisins COWI. 

Sé litið til næstu þrjátíu ára mun fjárfesting í uppbyggingu almenningssamgangna í þessum fyrsta fasa skila um 26 milljarða króna ábata umfram kostnað á núvirði, en það jafngildir um 7% arðsemi á ári.

Lilja G. Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Verkefnastofu borgarlínunnar, segir í samtali við mbl.is að niðurstöður greiningarinnar komi ekki mjög á óvart en þær séu þó ánægjulegar. „Maður veit auðvitað aldrei alveg hver útkoman er þegar farið er í svona verkefni, en þetta styrkir verkefnið sannarlega,“ segir hún. Vonast Lilja til að skýrslan verði til þess að bæta umræður um framkvæmdina.

Allt með í reikninginn

Inn í reikninginn eru, auk stofn- og rekstrarkostnaðar og miðasölutekna borgarlínunnar, tekin heildaráhrif borgarlínunnar á umferð, sem metin eru jákvæð upp á 71,2 milljarða króna. Kemur það til vegna minni ferðatíma farþega (93,6 ma.kr.) og fækkunar í eknum kílómetrum, en á móti koma neikvæð áhrif vegna aukins ferðatíma annarra samgöngumáta, svosem einkabíla (-14,4 ma.kr.) og vöruflutninga (-5,0 ma.kr.).

Af öðrum þáttum sem litið er til má nefna umhverfisáhrif og áhrif á fjölda umferðarslysa, en ábatinn af þeim þáttum er óverulegur í samanburði við fyrrnefnda þætti, eins og tíundað er hér að neðan.

Í greiningunni var notast við sömu aðferðafræði og beitt er í nágrannalöndum við undirbúning stórra samgönguframkvæmda, svo sem jarðlestarkerfinu í Kaupmannahöfn (Metro) og léttlestarkerfi Óðinsvéa og Árósa. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðist er í slíka greiningu hér á landi á samgönguframkvæmd hérlendis, en samskonar greiningar hafa þó verið framkvæmdar við gerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Hugmynd að útfærslu borgarlínustöðvar.
Hugmynd að útfærslu borgarlínustöðvar.

Helstu kostnaðar- og tekjuliðir eru sem hér segir, samkvæmt áætlun. Allar upphæðir eru á verðlagi ársins í ár.

Stofnkostnaður: 

Kostnaður við framkvæmdir í fyrsta áfanga borgarlínu er metinn 38,05 milljarðar króna. Framkvæmdir eiga að hefjast á næsta ári og ljúka að mestu árið 2023, þótt litlum hluta verði framhaldið árið 2024.

Rekstrarkostnaður:

Rekstrarkostnaður Strætó á árinu 2020 er 5,99 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaðurinn aukist um 1,9 milljarða króna á ári með tilkomu borgarlínunnar. Þar af verður kostnaður við rekstur borgarlínunnar sjálfrar um milljarður á ári, en kostnaður við aukna þjónustu á núverandi kerfi Strætó um 900 milljónir króna. 

Tekjur:

Ekki er í greiningunni gert ráð fyrir að verðskrá Strætó muni breytast við komu borgarlínunnar. Gert er ráð fyrir að tekjur af rekstri aukist vegna aukinnar notkunar og muni því hækka um sem nemur 9,6 milljörðum króna á þrjátíu ára tímabili.

Áhrif á aðra umferð:

Áætlað er að tilkoma fyrsta fasa borgarlínunnar muni fjölga ferðum með almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu um 20 prósent, eða úr 41.500 ferðum á dag í 49.800. Áætlað er að meðalferðatími lækki úr 13 mínútum niður í 11 en að meðalferðalengd verði óbreytt, um 6 kílómetrar. 

Vegna forgangsröðunar borgarlínunnar í vegakerfinu er gert ráð fyrir að meðalferðatími hvers bíls aukist lítillega.

Athyglisvert er að skoða kostnaðarmat á hverri klukkustund í umferð. Hvers virði er það að sleppa við að sitja í umferð í klukkustund?

Miðað er við að kostnaður almenns ökumanns af því að keyra í klukkustund sé 2.444 krónur, en 3.666 krónur sitji hann í umferðarteppu og skýrist munurinn af óþægindum bílstjórans, sem metin eru meiri við kyrrsetu í þungri umferð.  Fyrir ökumenn sem eru í vinnunni er kostnaðurinn af klukkustund í almennri umferð metinn 5.781 króna, en 8.671 króna í þéttri umferð.

Í skýrslunni er litið til áhrifa framkvæmdarinnar á alla ferðamáta.
Í skýrslunni er litið til áhrifa framkvæmdarinnar á alla ferðamáta. mbl.is/Árni Sæberg

Áhrif á farþega:

„Búist er við að þjónusta við farþega almenningssamgangna muni batna á öllum sviðum, hvort sem litið er til ferðatíma, biðtíma, tíma til og frá stoppistöð eða fjölda skiptinga,“ segir í skýrslunni, sem skrifuð er á ensku, í lauslegri þýðingu. Þær bætur teljast allar til hagræns ábata, en því til viðbótar er gert ráð fyrir að farþegum fjölgi vegna þeirra sem eykur ábatann enn.

Gert er ráð fyrir að samanlagður ferðatími farþega á ársgrunvelli dragist saman um 287 þúsund klukkutíma, biðtími um 198 þúsund klukkutíma, ferðatími til og frá stoppistöðvum um 82 þúsundklukkutíma og tími sem fer í skiptingar um 25 þúsund klukkutíma. Allur þessi tími er síðan verðlagður á svipaðan hátt og tími ökumanna.

Þessi þáttur er þýðingarmestur í ábatagreiningunni en hagrænn ábati er talinn nema 93,6 milljörðum króna.

Færri umferðarslys o.fl.

Meðal annarra þátta sem tekið er tillit til er fjöldi umferðarslysa. Undanfarinn áratug hafa umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu, þar sem slys verður á fólki, verið á bilinu 357-469 árlega  og um fjögur þúsund önnur tifelli þar sem ekki verður slys á fólki. Talið er að með tilkomu borgarlínunnar muni umferðaróhöppum, þar sem fólk slasast, fækka um að meðaltali 2 á ári en öðrum óhöppum fækka um 27. Á þrjátíu ára tímabili er ábatinn af þeirri fækkun slysa metinn á 2,9 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert