Segir landamæralokun hafa verið mistök

Jón Þór Þorvaldsson segir að mistök hafi verið gerð þegar …
Jón Þór Þorvaldsson segir að mistök hafi verið gerð þegar aðgerðir á landamærum voru hertar í ágúst. Fjölmargir flugmenn hafa misst vinnuna í faraldrinum. Haraldur Jónasson/Hari

Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, telur það hafa verið mistök að loka landamærum með þeim hætti sem gert var í miðjum ágúst til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta segir Jón í nýjum hlaðvarpsþætti, Flugvarpinu, sem er nýútkominn.

Frá 19. ágúst hafa allir sem koma til landsins þurft að fara í skimun á landamærunum, sæta 4-6 daga sóttkví og halda síðan í aðra sóttkví. Fyrir þann tíma nægði að fara í eina skimun á landamærunum án sóttkvíar, og raunar þurftu farþegar frá skilgreindum lágáhættusvæðum ekki að fara í skimun. Fyrir vikið fækkaði flugfarþegum töluvert.

Alls starfa nú 77 flugmenn hjá Icelandair, en í mars voru þeir 446. Hafa 68 þeirra misst vinnuna eftir að aðgerðir voru hertar í ágúst.

Í þættinum segist Jón merkja að nú séu að verða vatnaskil í afstöðu vísindamanna og heilbrigðisstarfsmanna hvað varðar harðar sóttvarnaaðgerðir og lokun landamæra um heiminn. Raddir um að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni verði sífellt háværari.

Nýlegt hlutafjárútboð Icelandair er einnig til umræðu í þættinum, en Jón Þór segist stoltur af mikilli þátttöku flugmanna í útboðinu. Þá ræðir hann einnig erfiða stöðu atvinnuflugmanna, Reykjavíkurflugvöll og fleira.

Hægt er hlusta á þáttinn á Spotify. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert