Hálf öld síðan Ísland gekk í EFTA – aðildin aldrei mikilvægari

Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sátu fundinn Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtentstein, …
Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sátu fundinn Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtentstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir aðildina að EFTA og EES sjaldan hafa skipt meira máli en nú þegar heimkreppa stendur yfir.

Í ár er hálf öld síðan Ísland gekk í EFTA. Horfur í alþjóðaviðskiptum, efnahagshorfur í skugga heimsfaraldurs og fríverslunarmál voru aðalumræðuefnin á árlegum haustfundi EFTA í dag, eftir því sem fram kemur í tilkynningu. 

Ráðherrafundur EFTA-ríkjanna fór fram að þessu sinni í gegnum fjarfundarbúnað vegna kórónuveirufaraldursins. Á fundinum ítrekuðu ráðherrarnir mikilvægi þess að standa vörð um frjáls milliríkjaviðskipti sem grundvallast á gagnsæi og skýrum leikreglum í ljósi alvarlegrar stöðu heimsviðskipta á tímum Covid-19.

Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi þess að tryggja skjótan efnahagsbata í kjölfar heimsfaraldursins. Þá ræddu þeir innbyrðis samtarf EFTA-ríkjanna, samskiptin við helstu samstarfsríki, Evrópusambandið og Bretland.  EFTA fagnar sextíu ára starfsafmæli á árinu, auk þess sem hálf öld er liðin frá því að Ísland gerðist aðili að samtökunum. 

„Það var mikið gæfuspor fyrir Ísland að ganga í EFTA á sínum tíma, þær efnahagslegur framfarir sem orðið hafa hér á landi undanfarna fimm áratugi eiga tvímælalaust að verulegu leyti rætur að rekja til inngöngunnar í EFTA og síðan EES. Þetta skiptir ekki síst máli núna þegar við göngum í gegnum alvarlega efnahagskreppu vegna heimsfaraldurs. Við erum einfaldlega sterkari þegar við tökum höndum saman,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sátu fundinn Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtentstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert