„Hvenær er eðlilegt að fólk deyi?“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mun á næstu 1-2 dögum leggja til harðari sóttvarnaaðgerðir. „Þetta snýr bara að því að takmarka hópa sem mest. Snýst um fjarlægðarmörkin og snýst um sameiginlega snertifleti,“ segir Þórólfur. 

Hann segir að til þessa hafi verið minni kvaðir á leik- og grunnskólabörn en gefur ekki upp hvort aðgerðirnar snúi að því. 

Yrði rosalegt ef fólk færi að mótmæla 

Víða um heim hefur orðið vart við vaxandi óánægju vegna sóttvarvarnaaðgerða. Á Ítalíu bárust t.a.m. fregnir af mótmælum fólks þegar harðari sóttvarnaaðgerðir voru boðaðar. Þórólfur segir að það sé hluti af þessu ástandi að fólk sé búið að fá nóg.

„Þetta er hluti af þessari farsóttarþreytu og að finnast aðgerðir ósanngjarnar og snerta sig meira en aðra. Aðferðin til að koma í veg fyrir svona er í fyrsta lagi að vera ekki að beita of íþyngjandi aðgerðum. Það er sú stefna sem við höfum reynt að fara. Sumir eru óánægðir með það og segja að við ættum að ganga lengra. Mér finnst að við þurfum að reyna eins og við getum með sem minnst íþyngjandi aðgerðum að ná árangri. Ef það tekst ekki þá munum við bæta í,“ segir Þórólfur. 

Margir Ítalir mótmæltu nýlegum sóttvarnaaðgerðum.
Margir Ítalir mótmæltu nýlegum sóttvarnaaðgerðum. AFP

Margir láta sóttvarnateymið heyra það

Hann segir að í öðru lagi telji hann mikilvægt að sinna upplýsingagjöfinni líkt og gert hefur verið. „Að hafa allt uppi á borðinu til að fá fólk með okkur. Það yrði rosalegt ef fólk færi að mótmæla því þá erum við ekki með neina samstöðu. Þetta snýst fyrst og fremst um atferli einstaklinga. Hvað þeir gera, en ekki hvort boð og bönn séu í gangi,“ segir Þórólfur. 

Að sögn Þórólfs láta margir sóttvarnateymið heyra það.
Að sögn Þórólfs láta margir sóttvarnateymið heyra það.

Hvað finnst þér um að vera í þessu leiðtogahlutverki?

„Ég held að okkur hafi tekist ágætlega að ná til fólks þótt margir séu óánægðir og láti okkur heyra það. Eftir sem áður þurfum við að vera með sem sanngjarnasta upplýsingagjöf og segja hvað við erum að gera. Segja frá því hvað hefur tekist vel og hvað ekki. Ef við erum opinská í því held ég að allar forsendur séu fyrir því að fá fólk með okkur. Ég hef verið í þessu hlutverki sem læknir í gegnum tíðina. Þetta er þess vegna ekkert nýtt þótt þetta sé óvenjulega vindasamt og langdregið á köflum,“ segir Þórólfur.

Ágætt að sjúkdómum fækki  

Í Morgunblaðinu 24. október var sagt frá því að dauðsföll í ár væru langt undir meðaltali 50 ára. Spurður hvort í ljósi þess megi færa rök fyrir því að aðgerðir séu of harkalegar segir Þórólfur að hann telji svo ekki vera.  

„Hver er eðlileg dánartíðni? Hvenær er eðlilegt að fólk deyi, hverjir deyi og hverjir ekki? Auðvitað deyja allir að lokum,“ segir Þórólfur. 

Hann segir ljóst að tíðni annarra sjúkdóma sé miklu minni en venjulega, sem tengja megi betri sóttvörnum. „Er það gott? er það vont? Ég held að það sé ágætt. Ég held að það sé ekkert eðlilegt ástand ef fullt af sýkingum er í gangi,“ segir Þórólfur. 

Hann segir að aðalatriðið snúist um það að ef faraldurinn vex enn frekar setji það aukið álag á spítalann. „Það þarf ekki mikið til þess að faraldurinn fari úr böndunum. Landspítalinn er nú þegar kominn á neyðarstig. Ef það verður verra kemur það niður á öðrum sjúklingahópum. Það þarf ekki að koma fram í dánartölum. Það getur komið fram í öðrum alvarlegum afleiðingum. Það getur líka komið fram í langvarandi alvarlegum afleiðingum fyrr Covid-sjúklinga. Þetta snýst ekki bara um dauðsföll,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert