Kirkjan svarar gagnrýni Óskars

Pétur G. Markan.
Pétur G. Markan. Ljósmynd/Aðsend

Séra Óskar Ingi Ingason, sóknarprestur í Ólafsvík, var mjög gagnrýninn á verklag kirkjustjórnarinnar og fleira sem viðkemur þjóðkirkjunni í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um síðustu helgi. Þá lýsti hann stappi sem hann hefur átt í vegna viðhalds á prestssetrinu í Ólafsvík. Séra Óskar hefur verið prestur í aldarfjórðung en kveðst ekki treysta sér til að halda áfram að gegna þeirri þjónustu nema róttækar breytingar verði.

Morgunblaðið leitaði svara við nokkrum spurningum, í framhaldi af viðtalinu, hjá Pétri G. Markan, samskiptastjóra þjóðkirkjunnar. Þau fara hér á eftir.

–Er það rétt að þöggun og ótti ríki innan kirkjunnar?

„Nei, það ríkir lýðræði og opin umræða í kirkjunni. Þess vegna ber umræðu um kirkjuna jafn oft á góma í umræðu dagsins. Kirkja fólksins er frjáls og orðið er frjálst. Nú síðast í Morgunblaðinu, sem vísað er til. Þjóðkirkjan er lýðræðisleg fjöldahreyfing sem hefur merkilega sögu að baki sér, með brýnt erindi inn í samtímann og hefur það að leiðarljósi að verða samferða íslenskri þjóð inn í bjarta framtíð.“

–Vill kirkjustjórnin, þ.e. kirkjuþing, kirkjuráð, biskupafundur og biskupsstofa, hafa alræðisvald yfir prestum og sóknum?

„Evangelísk-lútersk íslensk þjóðkirkja er öðru fremur kirkja fólksins þar sem rödd og vægi hvers og eins er varið með leikreglum lýðræðisins. Um þetta vitnar einna helst samsetning kirkjuþings þar sem leikmenn og vígðir þjónar koma saman og ákvarða um framtíð kirkjunnar hverju sinni. Þá eru leikmenn í meirihluta á kirkjuþingi.

Það segir merkilega sögu um lýðræðið innan kirkjunnar að biskup Íslands hefur ekki atkvæðisrétt á kirkjuþingi, æðsta vettvangi þjóðkirkjunnar. Það er einmitt til marks um grasrótina sem stýrir för kirkjunnar og tryggir að þjóðkirkjan er ekki biskupakirkja með alvald, heldur virk lýðræðisstofnun.“

–Er kirkjustjórnin úr sambandi við grasrótina, þ.e. þjónandi presta, sóknarnefndir og safnaðarfólk? Er það rétt að margir sóknarnefndarmenn hafi gefist upp á vinnubrögðum kirkjustjórnarinnar? Er skortur á samráði við sóknirnar um breytingar innan kirkjunnar, t.d. um sameiningu prestakalla?

„Prófastar, vígslubiskupar og biskup Íslands vísitera reglulega sóknir landsins og eiga samtal við presta og sóknarnefndir. Starfsfólk biskupsstofu er ávallt til þjónustu reiðubúið til að liðsinna sóknarnefndunum. Áður en lagðar eru fram tillögur að veigamiklum breytingum, s.s. á sameiningum prestakalla, eru tillögur ávallt sendar heim í hérað til umsagnar og þær birtar í samráðsgátt á vef kirkjunnar.“

–Er það rétt að kirkjuþing hafi sett starfsreglur sem stangast á við lög þannig að draga megi ráðningu flestra presta undanfarin ár í efa?

„Úrskurður kærunefndar jafnréttismála getur hugsanlega haft áhrif í málum þar sem kjörnefnd prestakalls hefur ekki kosið þann umsækjanda sem hæfastur er eða jafnhæfur öðrum og er af því kyni sem á hallar. Það er því langsótt að fullyrða að draga megi ráðningar flestra presta í efa.

Biskupi, kjörnefndum prestakalla og öðrum innan kirkjunnar ber að starfa eftir starfsreglum kirkjuþings. Það er í anda lýðræðis og vilja fólksins í kirkjunni. Fólk hefur samkvæmt því verið kosið og ráðið til prestsstarfa á grundvelli starfsreglna kirkjuþings um málsmeðferð. Því er rangt að gera biskup ábyrgan ef regluverkið kann að vera gallað. Fyrir kirkjuþingi liggja nú tillögur að starfsreglum um breytt fyrirkomulag á vali til prestsstarfa í prestaköllum.“

–Óskar lýsir samskiptum sínum við yfirstjórn kirkjunnar vegna prestssetursins í Ólafsvík og meintu tómlæti sem honum mætti vegna umkvartana sinna. Hvað segir biskupsstofa um það mál?

„Viðhald prestssetra mætti vera meira og betra á mörgum stöðum. Kirkjuráð hefur ekki haft nóg fjármagn til að sinna viðhaldi sem skyldi.

Kirkjan tjáir sig ekki um einstök mál starfsmanna kirkjunnar. Það er vilji og metnaður kirkjunnar að sinna starfsfólki sínu vel og í samræmi við samninga og skyldur. Umræddur prestur er hluti af stórkostlegum mannauði kirkjunnar sem við erum afar stolt af.“ gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert