Stefna stjórnvalda ekki sjálfbær

Sigríður Andersen er ómyrk í máli um aðgerðir stjórnvalda í …
Sigríður Andersen er ómyrk í máli um aðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki sátt við hertar sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda. Hún gerir miklar athugasemdir við stefnu þeirra í baráttunni við kórónuveiruna og efast um forsendurnar.

Því miður erum við engu nær um forsendur þessara ákvarðana sem fela þó í sér verulegt íþyngjandi inngrip inn í einkalíf manna og trúlega kippa endanlega fótunum undan ýmsum rekstri sem hefur tekist að þreyja þorrann hingað til,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.. Minnisblað sóttvarnalæknis, þar sem þessar hörðu aðgerðir eru lagðar til, er lítið rökstutt og blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar bætti þar engu við.

Hagsmunir unga fólksins fyrir borð bornir

Hún telur að svo víðtækar og djúpstæðar aðgerðir kalli á sérstaka og vandaða röksemdafærslu, en sú sé ekki raunin.Þegar gripið er til endurtekinna aðgerða gegn börnum og ungmennum er rík ástæða til þess að rökstyðja það sérstaklega í ljósi ítrekaðra ummæla helstu sérfræðinga, m.a. sóttvarnalæknis sjálfs, að það heyri til undantekninga að börn og ungmenni veikist illa og jafnvel að þau séu ekki helstu smitberarnir.

Sigríður segir mikilvægt að fólk leiði ekki hagsmuni ungu kynslóðarinnar hjá sér eða láti mæta afgangi. „Það er alvarlegt hvernig vegið er að unga fólkinu í þessum aðgerðum. Takmörkun á skólahaldi,  íþróttastarfi og annarri uppbyggilegri starfsemi veldur þeim mörgum beinu tjóni. Óbeina tjónið af þessari upplausn á skólahaldi og takmörkunum á tómstundum unga fólksins mun hins vegar taka mörg ár að koma fram að fullu.

Efnahagslífið lagt í hættu

Viðbrögðin við veirunni finnast Sigríði fálmkennd, hvort sem þær eru ættaðar frá læknum eða stjórnmálum. „Mér sýnist sú stefna sem stjórnvöld virðast ætla að tileinka sér, opna og loka á víxl, ekki vera sjálfbær og til þess fallin að hafa alls kyns óvæntar neikvæðar afleiðingar í för með sér.

Hún er enn ómyrkari í máli um efnahagslegar afleiðingar faraldursins, sem Sigríður óttast að geti orðið mjög langvinnar. Ekki þá aðeins vegna lokana og tekjufalls víða í atvinnulífinu, heldur ekki síður vegna hratt vaxandi skulda ríkisins.

Með atvinnulífið í spennitreyju sóttvarna stefnir allt í að ríkissjóður muni safna skuldum sem nema ótrúlegum fjárhæðum næstu árin,“ segir Sigríður og minnir á hver muni borga þær. Þessi skuldabaggi bíður unga fólksins þegar það kemur út á vinnumarkaðinn af fullum krafti á næstu árum og áratugum. Afborganir af þessum skuldum ríkissjóðs munu fyrst og síðast koma úr launaumslögum þessa fólks. Skuldasöfnun í dag er skattur á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert