Aldrei fleiri en 100 saman miðað við nýtt kerfi

Staðan á viðvörunarkefinu eins og það er í dag.
Staðan á viðvörunarkefinu eins og það er í dag. Skjáskot/Covid.is

Miðað við nýtt litakóðakerfi almannavarna vegna Covid-19 verða samkomutakmörk ekki rýmkuð meira en í 100 manns meðan á faraldrinum stendur. Þá er tveggja metra regla í gildi innan allra litakóða. Jafnvel innan gráu viðvörunarinnar, hins nýja „norms“, eru samkomutakmörk í 50 - 100 manns.

Hér er farið yfir helstu þætti hvers litakóða fyrir sig en litakóðakerfið tók gildi í dag. 

Skjáskot/Covid.is

Rautt ástand nú í gildi

Sem stendur er alvarlegt ástand í gildi vegna Covid-19 hérlendis. Slíkt ástand er merkt rautt. Rautt ástand stendur fyrir miklar fjöldatakmarkanir. Í ástandinu felast „miklar líkur á mjög miklum samfélagslegum áhrifum. Strangar og íþyngjandi sóttvarnaaðgerðir á samkomum og jafnvel ferðum fólks innanlands. Mikil hætta á smitum og fólk beðið að halda sig innan síns nánasta tengslahóps og fara sérstaklega varlega í þjónustu og umgengni við viðkvæma hópa. Heilbrigðiskerfið er við þolmörk og álag á viðbragðsaðila mikið,“ segir á covid.is. 

5-20 manna samkomutakmörk falla undir rautt ástand, sem og tveggja metra nálægðarmörk, grímuskylda í almenningssamgöngum, verslunum, þegar farið er á milli sóttvarnahólfa og í starfsemi sem krefst nándar. Samvera meðal allra nánustu er þó heimil. 

Skjáskot/Covid.is

Aukin hætta í appelsínugulu ástandi

Einu þrepi neðar en rauða ástandið er appelsínugult ástand sem ber heitið „Aukin hætta“. Í slíku ástandi eru „miðlungs eða miklar líkur á að faraldurinn hafi veruleg áhrif á samfélagið og daglegar athafnir fólks. Skerðing á þjónustu og samkomum er töluverð, sýkingarhætta hefur aukist og fólk beðið að halda sig innan síns nána tengslahóps og fara sérstaklega varlega í kringum einstaklinga í viðkvæmum hópum. Hætta er á að heilbrigðiskerfið sé undir miklu álagi,“ segir á covid.is.

Í appelsínugulu ástandi er samvera á meðal fólks í nánum tengslum leyfð, fjöldatakmörk á bilinu 20-50 manns, nálægðarmörk tveir metrar og grímuskylda í almenningssamgöngum og starfsemi sem krefst nándar. 

Skjáskot/Covid.is

Vertu á verði í gulu ástandi

Gula ástandið ber heitið „Vertu á verði“ en í því eru sóttvarnareglur í gildi sem eru þó mun minna íþyngjandi en í appelsínugulu ástandi. Gult ástand hefur nokkur eða staðbundin áhrif á daglegt líf fólks, „sem og takmarkanir á þjónustu og samkomum. Aukin hætta er á sýkingum, en þó þannig að sóttvarnaaðgerðir eru sértækar og er beint að þeim stöðum og þjónustu þar sem sýkingarhættan er mest. Fólk í áhættuhópum þarf að sýna aukna aðgát sem og þjónustuaðilar viðkvæmra hópa,“ segir á covid.is.

Í gulu ástandi er hert á persónulegum sóttvörnum, 50-100 manna samkomutakmörk eru í gildi, nálægðarmörk miðast við tvo metra og grímuskylda í almenningssamgöngum og  starfsemi sem krefst nándar. 

Skjáskot/Covid.is

Grátt er „nýja normið“

„Nýja normið“ er svo grátt ástand. Þar eru sóttvarnir hafðar í fyrirrúmi en ástandið hefur þó óveruleg áhrif á daglegt líf fólks. 

Almenningur þarf að sinna persónulegum sóttvörnum og fara með gát. Grár er lægsta hættustigið og áhrifin eru einna helst á ferðir fólks milli landa, stærri samkomur og daglegt hreinlæti. Við þessar aðstæður mun ákveðin starfsemi þurfa að búa við skerðingar til lengri tíma. Grár er nýja normið okkar á meðan heimsfaraldurinn stendur yfir,“ segir á covid.is.

Í gráu ástandi eru 50-100 manna samkomutakmörk í gildi, rétt eins og í gulu ástandi, sem og tveggja metra regla. Notkun andlitsgríma á meðal almennings er þá talin óþörf. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert