400 milljónir til náttúruverndar

Vatnajökulsþjóðgarður.
Vatnajökulsþjóðgarður. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í tengslum við sérstakt fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitt um 400 milljón krónur til verkefna til náttúruverndar og til að bæta aðstöðu gesta á friðlýstum svæðum, einkum með stígagerð. Þetta segir í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. 

Af verkefnum sem er lokið má nefna gerð göngustíga frá Háey í Lágey í Dyrhólaey, stígagerð um búðasvæðið á Þingvöllum og gerð gönguleiðarinnar Laugahrings. 

Tveggja kílómetra göngustígur var þá lagður frá bílastæði við Rauðufossa að Fjallabaki og segir í tilkynningunni að göngustígurinn hafi nýst vel til stýringar ferðafólks um svæðið en  framkvæmdum við göngustíginn var flýtt í sumar vegna aukinna vinsælda svæðisins. 

Gerð bílastæðis í Eystri Fellsfjöru við Jökulsárlón lauk nú í haust og á að reisa sambærilegt bílastæði í Vestari Fellsfjöru á vegum landsáætlunar um uppbyggingu innviða. Segir í tilkynningunni að í byrjun árs 2020 hafi tekið „gildi nýtt deiliskipulag sem rammar inn framtíðarsýn, stefnu og uppbyggingu við Jökulsárlón í Vatnajökulsþjóðgarði.“ Samkvæmt deiliskipulaginu er einnig gert ráð fyrir salernisaðstöðu neðan við þjóðveg 1 

„Með þessum framkvæmdum er haldið áfram á þeirri vegferð að vernda náttúru og byggja á skipulegan hátt upp aðstöðu fyrir gesti í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum landsins,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert