Þorri landsmanna bólusettur fyrir sumarið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir allar upplýsingar sem stjórnvöld hafa um …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir allar upplýsingar sem stjórnvöld hafa um afhendingu bóluefna benda til þess að þorri landsmanna verði bólusettur fyrir sumarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það liggur fyrir miðað við það sem við erum með í hendi núna að það eru allar líkur á því að þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið. Það er það sem okkar upplýsingar benda til,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is um framvindu bólusetninga gegn kórónuveirunni.

Spurð hvers vegna ekki liggi frekari áætlanir uppi um afhendingu bóluefnis á næsta ári svarar Svandís:

„Þetta er veruleikinn í heiminum. Það er verið að framleiða þessi bóluefni og við tryggjum okkur kaup á þeim. Svo koma afhendingaráætlanirnar með tímanum. Við erum bara í sömu stöðu og löndin í kringum okkur með það. Aðalmálið er það að við erum búin að tryggja okkur bóluefnin.“

Allt hvað varðar tímasetningar liggur fyrir á bólusetningar.is að sögn ráðherra.

„Það er enginn sem getur svarað því betur heldur en það sem þar kemur fram.“

Treysta upplýsingum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í Fréttablaðinu í dag að líklegt væri að einungis lítið brot af þjóðinni verði bólusett gegn kórónuveirunni fyrir árslok 2021. Þá sagði hann áhyggjuefni að aðeins væri samið um magn en ekki afhendingartíma.

„Þessar upplýsingar sem þar [á bólusetningar.is] eru eru þær sem eru réttar. Þetta eru upplýsingar frá íslenskum stjórnvöldum. Það eru upplýsingar frá þeim sem annast samningana við Evrópusambandið í gegnum Svía og eru með sömu upplýsingar og aðrar Evrópuþjóðir,“ svarar Svandís innt álits á orðum Kára. Þá skorar hún á fjölmiðla að treysta upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum.

„Við erum að gera þetta með Evrópu og Norðurlöndunum og sitjum við sama borð og allar aðrar þjóðir hvað þetta varðar,“ segir hún.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Töluverður fjöldi á fyrsta ársfjórðungi

Á vef stjórnarráðsins var birt í dag sérstök árétting þar sem bent er á að frá Pfizer fái Ísland um 250.000 skammta sem dugi fyrir um 125.000 einstaklinga og er afhending hafin. Þá fær Ísland um 128.000 skammta frá Moderna sem dugi fyrir um 64.000 einstaklinga og áætlað er að afhending hefjist á fyrsta ársfjórðungi.

Jafnframt fái Ísland um 230.000 skammta af bóluefni AstraZeneca sem dugi fyrir um 115.000 einstaklinga. Stefnir fyrirtækið að því að byrja að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi. Auk þess er áætlað að afhending á bóluefni fyrir 235 þúsund einstaklinga frá Janssen hefjist á þriðja ársfjórðungi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert