Vekur athygli á nýjum ferðatakmörkunum

Vél Icelandair á Kastrup-flugvelli í Danmörku. Mynd úr safni.
Vél Icelandair á Kastrup-flugvelli í Danmörku. Mynd úr safni. mbl.is/Jón Pétur

Utanríkisráðuneytið vekur athygli á breyttum ferðatakmörkunum í Bretlandi og Danmörku vegna kórónuveirufaraldursins. Landamæraeftirlit verður hert í Danmörku og frá morgundeginum þurfa allir sem þangað koma að framvísa neikvæðu Covid-19 prófi sem ekki er eldra en 24 tíma. 

Hraðpróf verða einnig tekin gild, ekki einungis PCR próf, að því er fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins. Allir farþegar sem koma til Danmerkur þurfa að eiga lögmætt erindi þangað.

Allir farþegar, 11 ára og eldri, sem koma til Bretlands frá og með næstu viku þurfa að sýna fram á neikvætt Covid-19 próf sem er ekki eldra en 72 klukkutímar.

Eins og áður þurfa allir farþegar að fylla út svokallað Passenger Locator Form. Þeir farþegar sem ferðast frá ríkjum sem eru ekki á grænum lista breskra stjórnvalda þurfa samt sem áður að fara í sóttkví í 10 daga, þrátt fyrir neikvætt próf. Ísland er núna á græna listanum og þurfa farþegar þaðan því ekki að fara í sóttkví.

Enn fremur er bent á ferðaráð vegna heimsfaraldursins á vef stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert