„Við verðum að fara mjög varlega“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra með bóluefni Pfizer.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra með bóluefni Pfizer. mbl.is/Kristinn Magnússon

Slakað verður á sam­komutak­mörk­un­um úr 10 manns í 20 manns þegar ný reglu­gerð heil­brigðisráðherra tek­ur gildi 13. janú­ar. Ná tilslak­an­irn­ar meðal ann­ars til íþrótta, lík­ams­rækt­ar­stöðva, skíðasvæða og sviðslista.

Gert er ráð fyr­ir að ný reglugerð, sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi í morgun, gildi frá 13. janú­ar til 17. fe­brú­ar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir í samtali við mbl.is að samhljómur hafi verið um nýja reglugerð innan ríkisstjórnarinnar. 

Á meðal þess sem fram kemur í reglugerðinni er að heimiluð verði starf­semi lík­ams­rækt­ar­stöðva með mikl­um tak­mörk­un­um. Þannig verði bara opið fyr­ir hóp­tíma með 20 manns að há­marki.

Kom ekki til skoðunar að leyfa líkamsræktarstöðvum að opna tækjasali? 

„Tillaga sóttvarnalæknis snýst um þetta, að starfsemi líkamsræktarstöðva verði leyfð með þessum miklu takmörkunum, það er að segja að leyfa hóptíma með allt að 20 þátttakendum, búningsherbergi verði lokuð og það þarf að tryggja mjög vel sóttvarnaráðstafanir milli hópa. Þetta er sú tillaga sem sóttvarnalæknir leggur til og ég fellst á,“ segir Svandís. 

Þið hafið ekkert skoðað að fara út fyrir minnisblað sóttvarnalæknis?

„Staðan er sú að þó að við séum með góða stöðu innanlands er faraldurinn á bullandi siglingu í löndunum í kringum okkur. Ef við förum í þessar afléttingar gerum við það að því gefnu að við höldum faraldrinum áfram í skorðum og við verðum bara að fara mjög varlega. Við teljum ástæðu til þess að vanda okkur alveg sérstaklega þegar við erum að fara í afléttingar á þessum tímapunkti.“

Sem áður segir gildir ný reglugerð frá 13. janúar til 17. febrúar, eða í fimm vikur. 

„Við leggjum upp með það núna til að tryggja eins mikinn fyrirsjáanleika og hægt er. Við þurfum öll að vera tilbúin fyrir þann ófyrirsjáanleika sem veiran færir okkur, en þetta er svona miðað við það að við höldum sjó,“ segir Svandís. 

Sitjum við sama borð og Evrópusambandið 

Svandís segir mikilvægt að halda faraldrinum í skorðum svo að bólusetning gangi sem best fyrir sig. 

„Það eru kjöraðstæður í samfélaginu að faraldurinn sé í lægð þegar bólusetningar fara af stað svo að við getum einbeitt okkur að því ferli eins og hægt er. Það hljóta að vera mjög erfiðar og krefjandi aðstæður þar sem faraldurinn er í hæstu hæðum að vera að bólusetja á sama tíma,“ segir Svandís. 

Von er á næsta skammti bóluefnis frá lyfjaframleiðandanum Pfizer 20. janúar og fyrstu sendingu frá Moderna snemma í næstu viku. „Það er það sem við erum með í hendi núna. Þetta er alltaf að skýrast betur frá degi til dags,“ segir Svandís. 

Greint var frá því í morgun að Evr­ópu­sam­bandið hafi tvö­faldað samn­ing sinn við Pfizer og fær sam­bandið nú 300 millj­ón­ir bólu­efna­skammta auka­lega við það sem áður hafði verið samið um. ESB fær því allt að 600 millj­ón­ir skammta. 

Spurð hvort nýr samningur Evrópusambandsins við Pfizer hafi áhrif á Ísland segir Svandís:

„Í raun og veru hefur allt áhrif á okkur, við sitjum við sama borð og Evrópusambandið.“ 

Þannig að fleiri skammtar til ríkja Evrópusambandsins þýða fleiri skammtar til Íslands?

„Já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert