Fjallað um mögulega byltingu á Íslandi

Bloomberg ræðir meðal annars við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata.
Bloomberg ræðir meðal annars við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata. mbl.is/Hari

Áhugi á iðnaðarhampi hefur aukist hér á landi á sama tíma og heimsfaraldur Covid-19 veldur því að ferðafólki fækkar svo um munar. Ræktandi vonast eftir byltingu.

Fjallað er um ræktunina á vef Bloomberg þar sem rætt er við Kristin Sæmundsson en hann ræktaði iðnaðarhamp með góðum árangri í Grímsnesi síðastliðið sumar.

Einnig er rætt við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata. Hún kallar eftir skýrum reglum frá heilbrigðisráðherra um hvernig megi nýta hampinn á sem bestan hátt.

Hægt að nýta hampinn í ýmislegt

Heilbrigðisráðherra heimilaði ræktun og innflutning iðnaðarhamps síðasta vor. Hampurinn er áþekkur kannabisplöntum en inniheldur innan við 0,2% af THC og er því ónothæfur sem vímugjafi.

Kristinn segir hægt að nýta hampinn í ýmislegt og að plantan dafni vel þrátt fyrir að skilyrði til ræktunar séu að einhverju leyti ekki eins og best verður á kosið.

Honum þykir þróunin meðal bænda dapurleg og segir hverja jörðina á fætur annarri hafa á undanförnum árum breyst í sumarbústaðaland eða slíkt. Með hampinum sé hægt að fá bændur aftur til að nýta löndin sína og þá verði jarðirnar annað en ferðamannastaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert