Hagur neytenda og auglýsenda sé tryggður

Ríkisútvarpið.
Ríkisútvarpið. mbl.is/Eggert

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í allsherjar og menntamálanefnd, segir að það sé afstaða Vinstri grænna að tryggja þurfi fjármögnun Ríkisútvarpsins ef taka á stofnunina af auglýsingamarkaði. Þá sé óljóst að aðgerðir Stöðvar 2 um að læsa fréttum sínum tengist veru RÚV á honum. 

„Ég ætla ekki að tjá mig um það núna hvort að þessi aðgerð hjá Stöð 2 sé bein afleiðing af veru RÚV á auglýsingamarkaði. Eðli málsins samkvæmt hefur verið samdráttur í auglýsingatekjum vegna ástandsins. Staðan á auglýsingatekjum núna er ekki endilega sú að endurspegla nákvæmlega stöðuna þegar árferðið er eðlilegt,“ segir Bjarkey. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Arnþór

Hagur að allir sjái auglýsingar 

Hún segir fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur verða tekið til umræðu í næstu viku og þar með rætt í nefndinni líka. Spurð segir hún að helstu rökin fyrir veru RÚV á auglýsingamarkaði vera þau að þar sé hagur neytenda og auglýsenda tryggður.

„Ég hef sagt að það hljóti að vera hagur bæði neytenda og auglýsenda að auglýsa í útvarpi og sjónvarpi sem allir sjá og heyra hvar sem þeir eru á landinu og ekki síst fyrir þá sem ekki hafa efni á að kaupa sér áskriftarstöðvar,“ segir Bjarkey Olsen.

 Afleiðingarnar þurfa að vera ljósar 

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG og fyrrum fjölmiðlamaður, segir að afleiðingar þess að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði þurfi að vera ljósar áður en gripið sé til þess. Að taka þurfi umræðu um það hvort bæta eigi stofnuninni upp tekjurnar sem hverfa eða hvort um sé að ræða samdrátt í starfseminni. 

„Mér finnst sjálfsagt að setjast yfir þau mál og ágætt ef þessir þrír flokkar sem mynda ríkisstjórn setjist yfir þessi mál og skoði hvernig þeir vilja búa um hnútana hvað þetta varðar,“ segir Kolbeinn. 

Hann segir að atburðir heimsins undanfarin misseri undirstriki mikilvægi þess að hafa sameiginlegan skilning á staðreyndum mála. Í því skyni gegni sterkur ríkismiðlill lykilhlutverki. Tekur hann dæmi af atburðum í Bandaríkjunum þar sem andstæðir pólar og núningur hafi verið undirrót árásar á þinghúsið. Hann hafi verið m.a. byggður á ólíkri túlkun um það hver hafi verið sigurvegari forsetakosninganna. 

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ef maður horfir á samfélög sem hafa ekki öfluga ríkisfjölmiðla heldur hefur hvern í sínum bergmálshelli að hlusta á sín viðhorf þá sér maður mikilvægi eins hlutlausrar framsetningar og kostur er,“ segir Kolbeinn. 

Ekki búin að finna töfralausnina 

Spurður um það hvernig réttlæta megi veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði tekur Kolbeinn í svipaðan streng og Bjarkey. Að með veru RÚV á honum sé tryggður aðgangur fólks að auglýsingum óháð efnahagslegri stöðu. 

 „Það þýðir samt ekki að við séum búin að finna upp töfralausnina. Að nákvæmlega staðan eins og hún er nú með RÚV á auglýsingamarkaði sé hin eina rétta. Þess vegna finnst mér alveg sjálfsagt að setjast yfir málefni RÚV. Bæði hvað þetta varðar og hlutverk þess í almannavörnum,“ segir Kolbeinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert