Cyclothonið fer aftur af stað með breyttu sniði

Síðasta áratuginn hefur þetta ekki verið óalgeng sjón á Hringveginum …
Síðasta áratuginn hefur þetta ekki verið óalgeng sjón á Hringveginum í 2-3 daga yfir mitt sumarið. Eftir árs fjarveru snýr Cyclothonið til baka undir merkjum Símans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Cyclothon hjólakeppnin snýr til baka í ár undir merkjum Símans cyclothons ef aðstæður leyfa í samfélaginu eftir árs hlé, en aflýsa þurfti henni í fyrra vegna faraldursins. Breytingar hafa verið gerðar fjölda keppenda í hverju liði og þó það virðist smávægileg breyting gæti það haft umtalsverð áhrif á bæði skipulag og þátttöku.

Helstu breytingar á keppninni nú verða þær að keppt er í einstaklingsflokki og 8-manna flokki, en áður höfðu verið 4-manna flokkur, 10-manna flokkur og einstaklingsflokkur. Þá verður Hjólakraftsflokkurinn á sínum stað, en það er flokkur fyrir börn og unglinga sem hjóla hringinn undir merkjum Hjólakrafts. Einnig verður sett hámark við einn bíl á hvert lið, en áður hafði mátt vera á tveimur bílum í 10-manna liðunum.

Þróunin allt önnur en þeir sáu fyrir

Magnús Ragnarsson, eigandi Símans cycothon og annar stofnandi hennar, segir í samtali við mbl.is að ákveðið hafi verið að gera þessa breytingu bæði út frá öryggismálum og hvernig þróun keppninnar hafi verið undanfarin ár. „Fjögurra manna flokkurinn lagði sig eiginlega niður sjálfur,“ segir hann, en Magnús bendir á að þegar keppnin hafi verið stofnuð fyrir níu árum hafi hann og Skúli Mogensen, hinn stofnandinn, talið að fjögurra manna flokkurinn yrði vinsælasta formið þar sem aðal metnaður fólks yrði á meðan tíu manna flokkurinn yrði „hobbí flokkur“. Þróunin hafi hins vegar verið allt önnur og þátttaka í fjögurra manna flokkinum var lítil síðustu ár á meðan tíu manna flokkurinn stækkaði og stækkaði og varð aðal flokkur keppninnar.

Í keppninni er hjólaður Hringvegurinn, með örlitlum útidúr.
Í keppninni er hjólaður Hringvegurinn, með örlitlum útidúr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Peningar eiga ekki að skipta máli

Þá segir hann þetta einnig einfalda allt skipulag keppninnar, bæði varðandi utanumhald sem og að þetta mæti ákveðinni gagnrýni sem hafi verið á þróun keppninnar. „Menn eru að skipta sér í tvo bíla og jafnvel gista á hótelum eða fljúga á milli landshluta,“ segir Magnús. Ekkert banni slíkt, en þróunin hafi verið að peningar hafi farið að skipta máli, sérstaklega þegar kom að því að ná topp árangri. „Betur fjármögnuð lið hafa átt meiri sigurmöguleika og það var ekki hugmyndin hjá okkur,“ segir hann. Sjálfur segir Magnús að hann hafi alltaf farið í einum bíl og horft á það sem skemmtilega móralska uppbyggingu fyrir viðkomandi lið eða fyrirtæki.

Breytingin með að fækka í átta manna lið gæti einnig aukið áhuga fyrir blönduðum liðum og kvennaliðum að sögn Magnúsar, en fyrir blönduð lið þarf að vera jafnt hlutfall kvenna og karla. Segir hann að þrátt fyrir að konur séu frábærir hjólarar hafi hallað á þær þegar komi að fjölda keppenda síðustu ár. Vonast hann til þess að með því að fækka keppendum í hverju liði verði auðveldara að fylla lið sem áður voru rétt við þröskuldinn að ná að fullskipa lið.

„Fólk vantar eitthvað í myrkrinu til að hlakka til“

Ástandið í lok júní, þegar keppnin fer fram, skiptir einnig nokkru máli og segir Magnús að skipuleggjendur horfi mikið til þess við skipulagið. „Við viljum síður þurfa að aflýsa keppninni,“ segir hann og bendir á að ein ráðstöfunin sé að hafa hvert lið í einum bíl þannig að hægt sé að mynda ákveðna kúlu í kringum hvert lið.

„Draumurinn er að geta haldið keppnina og það bendir allt í þá átt. Fólk vantar líka svo mikið viðfangsefni og markmið á þessum tímum,“ segir Magnús. „Það er enginn að fara í skíðaferðir og slík. Fólk vantar eitthvað í myrkrinu til að hlakka til.“ Vísar hann meðal annars til mikils áhuga á Laugavegshlaupinu nýlega, en uppselt var í hlaupið á nokkrum mínútum. Segir Magnús þetta sýna vel þá löngun sem fólk hafi á þessum tímum í að taka þátt í viðburðum sem þessum og setja sér markmið.

Frá ræsingu í fjögurra manna flokki í keppninni árið 2017.
Frá ræsingu í fjögurra manna flokki í keppninni árið 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Styrkleikaholl í ræsingu koma til greina

Þá segir Magnús að ef þörf verði á frekari aðgerðum verði opið fyrir að breyta ræsingu keppninnar, en hingað til hafa öll lið í sama flokki ræst saman. Það þýðir að oft hafa jafnvel 100-200 manns verið að ræsa saman í Reykjavík fram að fyrstu skiptingu, sem hafi síðast verið í Kjósarskarði. Segir Magnús að ef til þessa kæmi væri meðal annars hægt að setja upp styrkleikaholl. „Eftir startið verður þetta svo ekkert vandamál,“ segir Magnús en reglur keppninnar eru á þann veg að aðeins fimm lið mega vera saman eftir fyrsta hluta hennar.

„Reglunum hefur verið breytt nokkrum sinnum undanfarin ár,“ segir Magnús. „Allt er það gert til að bæta öryggi.“ Færri bílar ættu að hans sögn að auka öryggið, sérstaklega við skiptingar.

Aðspurður um áhuga erlendis frá segir Magnús að keppnin hafi fengið fullt af fyrirspurnum erlendis frá og erlendir keppendur séu viljugir að koma. „En það verður fyrirvari á því,“ segir Magnús og vísar aftur til sóttvarnamála. Þeir sem sýnt hafa mestan áhuga eru keppendur í einstaklingsflokki, en fyrir tveimur árum var sett nýtt met í þeim flokki og verður spennandi að sjá hvort einhver muni reyna við það í ár.

Keppnin fer líkt og áður fram yfir hásumarið og í ár er það dagana 22.-25. júní. Skráning er þegar hafin og verður opið fyrir skráningu til 15. apríl. Magnús segir aðspurður að ekkert formlegt hámark sé á fjölda liða, en að ef skráning fari upp úr öllu valdi gæti þurft að loka fyrir hana. Ekki ætti þó að þurfa að koma til þess. Til samanburðar hefur heildarfjöldi keppenda nokkrum sinnum farið yfir 1.000 manns á síðustu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert