Lögregla taldi skotárás minniháttar skemmdarverk

Notast var við haglabyssu til að skjóta á bílinn.
Notast var við haglabyssu til að skjóta á bílinn. Ljósmynd/aðsend

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu flokkaði skotárás á bifreið íbúa í Vogahverfi í mars á síðasta ári sem minniháttar skemmdarverk. Íbúinn, sem ekki vill koma fram undir nafni, er ósáttur við það hvernig málið var meðhöndlað hjá lögreglu þar sem það var látið niður falla.

„Um fimmleytið að morgni til heyri ég ægilegan hvell fyrir utan hjá mér. Ég hrökk við en spáði ekki mikið í þetta og fór að sofa aftur. Svo um morguninn fór ég út og sá að það var eins og bíllinn hefði lent í bílsprengju,“ segir maðurinn í samtali við mbl.is. 

Flokkað sem minniháttar skemmdarverk

Hann hafði samband við lögreglu og kom tæknideild hennar á svæðið. Einnig lét hann lögreglu í té gögn á borð við myndband af atvikinu úr öryggismyndavél. 

Í framhaldinu beið maðurinn fregna af rannsókninni. Hafði hann að lokum samband við lögreglu þar sem hann spurði um málið og fékk þær upplýsingar að málið væri flokkað sem minniháttar skemmdarverk. Hann undi því ekki og kærði málið. Fékk hann í október síðastliðnum bréf þess efnis að málið hefði verið fellt niður og  rannsókn á málinu hefði verið hætt þar sem ekki hefði verið talinn grundvöllur til að halda henni áfram. Þá kemur fram í bréfinu að málið hafi áfram verið flokkað sem minniháttar skemmdarverk.  

Málið var látið niður falla og flokkað sem minniháttar skemmdarverk.
Málið var látið niður falla og flokkað sem minniháttar skemmdarverk.

Mbl.is með gögn undir höndum gögn sem staðfesta frásögn mannsins um að skotárás hafi átt sér stað og að lögregla hafi verið með málið á sinni könnu. 

Telur ósamræmi í því hvernig tekið er á málum

Í framhaldi kærði maðurinn málið til ríkissaksóknara og er það enn þar til úrvinnslu. 

„Svo er skotið með loftriffli á bíl borgarstjóra og þá er maður kominn í gæsluvarðhald um leið,“ segir maðurinn sem telur ósamræmis gæta í málunum tveimur. 

„Það sýður á manni út af því hvernig þetta var höndlað. Maður er svo varnarlaus þegar lögreglan hættir að virka.  Að minnsta kosti vill maður að málið sé rannsakað,“ segir maðurinn.  

Bíllinn skemmdist talsvert.
Bíllinn skemmdist talsvert. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert