Frumvarp Framsóknar „sérkennilegur“ stuðningur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist fagna því að þingmenn Framsóknar styðji við frumvarp hennar um breytingu á áfengislöggjöf en segir flokkinn gera það með afar sérkennilegum hætti. Frumvarpið snýr að sölu áfengis og er því ætlað að heimila brugghúsum að selja afurð sína á framleiðslustað.

Framsóknarflokkurinn samþykkti frumvarp Áslaugar með fyrirvörum í ríkisstjórn á grundvelli lýðheilsusjónarmiða eftir mikla töf og vakti því athygli í dag þegar þingmenn flokksins lögðu fram sambærilegt frumvarp á Alþingi.

Þegar frumvarp Áslaugar er skoðað og borið saman við frumvarp þingmanna Framsóknar má raunar sjá að heilu lagabreytingartillögurnar eru nákvæmlega eins, orðrétt.

Vonar að frumvarpið verði loks að lögum

„Þetta kemur auðvitað á óvart. Ég hef ekki séð svona gert áður. En, þetta gefur mér von um að frumvarpið verði loksins afgreitt,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is, fegin að augljós samstaða virðist um hennar upprunalega frumvarp.

Þegar frumvarpið var lagt fyrir ríkisstjórn í mars á síðasta ári og síðan aftur um haustið sama ár gerðu þingmenn Framsóknar athugasemdir við það og lýstu yfir verulegum efasemdum. Áslaug segir að frumvarpinu hafi því verið breytt og það sé talsvert minna í sniðum eftir að hlutinn er snýr að íslenskri netverslun var tekinn út.

„Ég hef talað fyrir þessum breytingum lengi, þær eru hóflegar og tryggja jafnræði á áfengismarkaði. Þetta frumvarp snertir fjölda fólks en það eru um 200 manns starfandi í þessum geira í yfir 20 sveitarfélögum.

Ég get ekki skilið annað en að þingmenn Framsóknar hafi sannfærst svona mikið af mínum málstað, frelsinu og mikilvægi þess að styðja við íslenska framleiðslu og innlenda verslun, að þau gátu ekki annað en lýst yfir stuðningi við það, þó það sé gert með þessum sérkennilega hætti. Við í Sjálfstæðisflokknum fögnum öllum stuðningi við frelsið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert