Reiðubúin ef fjórða bylgjan fer af stað

Starfsfólk Landspítala í hlífðarfatnaði. Starfsfólk Covid-19 göngudeildarinnar hefur fengið fulla …
Starfsfólk Landspítala í hlífðarfatnaði. Starfsfólk Covid-19 göngudeildarinnar hefur fengið fulla bólusetningu við Covid-19 Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Staðan á Covid-19 göngudeild Landspítala er góð og hefur álagið þar minnkað í takt við færri smit í samfélaginu. Starfsfólk göngudeildarinnar er þó reiðubúið að takast á við það ef smitum fer aftur að fjölga í samfélaginu.

Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir Covid-19 göngudeildar. 

Starfsfólk deildarinnar hefur fengið fulla bólusetningu við Covid-19 og segir Ragnar aðspurður að það sé léttir. 

„Álagið á okkur endurspeglast í fjölda greindra tilfella,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is. 35 fullorðnir eru nú í eftirliti deildarinnar. „Það er ekki upp í nös á ketti,“ segir Ragnar. 

Allir fullorðnir sem smitaðir eru af Covid-19 eru í eftirliti deildarinnar og börn í eftirliti barnadeildar. Í tilkynningu frá Landspítala í gær kom fram að átta börn væru í eftirliti hennar.

„Öll börn á Íslandi hafa fengið mjög vægan sjúkdóm, nógu vægan til þess að ekkert þeirra hefur þurft að leggjast inn, þó einkennin hafi auðvitað verið mismikil,“ segir Ragnar.

Ragnar Freyr Ingvarsson umsjónarlæknir Covid-19 göngudeildar.
Ragnar Freyr Ingvarsson umsjónarlæknir Covid-19 göngudeildar.

„Höfum gert þetta nokkrum sinnum áður“

Afar fá kórónuveirusmit hafa greinst innanlands undanfarið. Aðspurður segir Ragnar þó að Covid-19 göngudeildin sé tilbúin í að takast á við það ef smitum fjölgar að nýju. 

„Við höfum gert þetta nokkrum sinnum áður. Við höfum prófað módelið í tvígang og það hefur gengið mjög vel. Það er ekkert sem segir að það muni ekki ganga vel ef fjórða bylgjan kemur,“ segir Ragnar. 

Módelið hefur lítið breyst frá upphafi, að sögn Ragnars. „Við höfum bara núið af smávægilega vankanta en annars hefur þetta bara gengið mjög vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert