Hörmulegar afleiðingar Covid-19

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, heimsótti Gustave Roussy krabbameinsstofnuna í Villejuif …
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, heimsótti Gustave Roussy krabbameinsstofnuna í Villejuif í dag. AFP

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft hörmulegar afleiðingar í för með sér varðandi krabbameinsmeðferðir í Evrópu segir framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Hans Kluge.

Röskun hefur orðið á þjónustu við fólk með krabbamein í þriðjungi ríkja Evrópu vegna Covid-19 en í dag er alþjóðlegur dagur gegn krabbameinum.

Alls eru 53 ríki í Evrópudeild WHO, þar af nokkur í Mið-Asíu. Í einu af hverjum þremur ríkjum hefur öll þjónusta eða að hluta lagst niður tímabundið vegna Covid-19 og álagsins á heilbrigðiskerfið sem farsóttin hefur valdið og ferðatakmarkanir.

Kluge segir að einhver ríki hafi glímt við skort á krabbameinslyfjum og í mörgum löndum hafi nýjum greiningum fækkað umtalsvert. Jafnvel í þeim ríkjum sem standa framarlega í skimunum. 

Í Hollandi og Belgíu fækkaði nýgreindum um 30-40% í fyrstu bylgju faraldursins í fyrra. Í Kírgistan nam fækkunin 90%. 

Fastlega er gert ráð fyrir því að dauðsföllum af völdum ristilkrabbameins eigi eftir að fjölga um 15% í Bretlandi þar sem krabbamein greinist síðar en áður og eins meðferðin ekki jafn skilvirk og áður. Fjölgun dauðsfalla af völdum brjóstakrabbameins er talin verða 9% í Bretlandi á næstu fimm árum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert