Alþingishúsið verði látið í friði

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi.

„Nú er unnið að óskiljanlegum áformum um að skemma ein fallegustu og merkilegustu húsakynni landsins.“ Þannig hefst bloggfærsla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um fyrirhugaðar framkvæmdir í Alþingishúsinu.

Hann segir að gömul hús hafi varðveist illa á Íslandi og að það heyri til undantekninga að upprunalegar innréttingar varðveitist. Mikilvægt sé að vernda menningararfinn þegar kemur að merkilegum húsum á borð við Alþingishúsið.

Hann bendir á að til standi að brjóta niður veggi til að auka rými og það hafi áhrif á fleiri en eitt herbergi. Öll þinghæðin muni taka breytingum og meðal annars muni gangur sem tengir hæðina saman hverfa í framkvæmdunum.

Sigmundur Davíð bendir á að Alþingishúsið er friðað og segir að nú reyni á það. „Því skyldu Minjastofnun og húsafriðunarnefnd heimila skemmdir á þessum einstöku salakynnum. Hver væri þá tilgangurinn með starfi þeirra?“ skrifar þingmaðurinn og bætir við að nú sé verið að byggja nýtt hús, eða „steinsteypukassa“ fyrir Alþingi. „Má ekki leyfa gamla þinghúsinu að vera í friði og verja þeim hundruðum milljóna sem færu í að gera nýjan sal í gamla þinghúsinu í verðugri verkefni?“ spyr hann.

Í síðustu viku hófst steypuvinna við nýbyggingu Alþingis fyrir alvöru.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert