Uppgjör í undirheimum

Íbúar í Rauðagerði sögðust enga skothvelli hafa heyrt.
Íbúar í Rauðagerði sögðust enga skothvelli hafa heyrt. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Albana á fertugsaldri var ráðinn bani fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík aðfaranótt sunnudags. Hann lætur eftir sig íslenska konu og ungt barn. Einn er í haldi lögreglu vegna málsins, erlendur karlmaður á fertugsaldri. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tengist málið að líkindum valdabaráttu í undirheimum ólöglegra vímuefna. Áverkar eftir skotvopn fundust á líki mannsins.

Innan lögreglu er óttast að árásin kunni að leiða til hefndaraðgerða. Átök eru sögð vera um yfirráð yfir fíkniefnamarkaði í undirheimum um þessar mundir, vegna valdatóms sem myndaðist þegar stórtækur íslenskur fíkniefnasali tók að draga sig í hlé fyrir skömmu.

Rannsókn á frumstigi

Í samtölum við Morgunblaðið og mbl.is sagðist lögregla ekkert geta tjáð sig um málið umfram það sem þegar hefði komið fram í fréttatilkynningum. Því fékkst ekki svarað hvort óskað yrði eftir gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum sem er í haldi lögreglu.

Íbúar í Rauðagerði ræddu margir við mbl.is í gær og sögðust þeir allir hafa einskis orðið varir. Engir skothvellir hefðu heyrst í götunni og velti einn nágranni því upp hvort hljóðdeyfir hefði mögulega verið notaður við verknaðinn.

Húsið þar sem maðurinn fannst látinn skipti um eigendur á síðasta ári og segja íbúar í kring að mikið hafi verið um grunsamlegar mannaferðir við húsið síðan. Nágrannar sögðust ekki kannast við þá sem keypt hefðu húsið. Rannsókn málsins hefur forgang hjá lögreglu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert