Reykjanesbraut í hættu en byggð sleppur

Þóra Björg Andrésdóttir, fyrir miðju, gerði meistaraverkefni sitt um hættumat …
Þóra Björg Andrésdóttir, fyrir miðju, gerði meistaraverkefni sitt um hættumat vegna eldgosa á Reykjanesi fyrir rúmum tveimur árum. Með á myndinni eru Ingibjörg Jónsdóttir og Ármann Höskuldsson úr eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Háskólans. mbl.is/RAX

Byggð á Reykjanesskaga myndi sleppa við hraun, en hraunstraumar gætu lokað Reykjanesbrautinni. Þetta eru líklegustu niðurstöður nýjasta hraunflæðilíkans vísindamanna í eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Háskóla Íslands sem uppfært var í gærkvöldi.

„Miðað við þetta líkan er Reykjanesbraut í ákveðinni hættu en jafnframt hugsanlegt að hraunið fari í hina áttina og þá er það Suðurstrandarvegur sem er í hættu,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Ólíklegt sé þó að hraunstraumurinn fari í báðar áttir. „Það væri mikil óheppni.“

Yfir 1.100 skjálftar hafa mælst á Reykjanesi frá því á miðnætti, en sá stærsti mældist 5,2 að stærð. Sá reið yfir klukkan 8:07 í morgun og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu, austur á Skóga og norður í Hrútafjörð að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Spálíkan lítur vel út

Óhætt er að segja að spálíkanið líti nokkuð vel út núna, segir Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur. „Miðað við hvernig skjálftavirknin er að einangra sig núna þá virðast bæði Grindavík og Vogar [á Vatnsleysuströnd] sleppa,“ segir Þóra, en báðir bæir væru í hættu ef gysi á röngum stað.

Tvö líkön eru notuð til að spá um hraunflæði. Það fyrra spáir fyrir um upptök mögulegs eldgoss en það síðara um hraunrennslið byggt á upptökum. Erfiðara er að spá um upptökin, en byggt á nýjustu gögnum eru líklegustu upptök við Trölladyngju og hefur færst austar – og fjær byggð – síðustu daga.

Myndin sýnir hvar líklegast er að eldgos hefjist. Svæði í …
Myndin sýnir hvar líklegast er að eldgos hefjist. Svæði í námunda við Trölladyngju er talið líklegast. Ljósmynd/Eldfjallafræðo- og náttúruvárhópur HÍ

Þóra segir að eldsuppkomuspáin, eins og hún er kölluð, horfi til allra gossprungna á Reykjanesi sem mögulegra eldsupptaka. Þeim sé þó gefið ólíkt vægi eftir gögnum um skjálftavirkni. „Skjálftarnir hafa einangrað sig á ákveðið svæði og þá fær það svæði meira vægi í spánni,“ þ.e. meiri líkur eru taldar á að gosið hefjist þar. Spálíkanið getur þó breyst hratt ef skjálftavirknin breytist.

Finna má líkön og annan fróðleik á facebooksíðu Eldfjallafræði- og náttúruvárhópsins.

Búa sig undir það versta

Nú í hádeginu hófst fundur almannavarna með vísindamönnum Veðurstofunnar, fulltrúum sveitarfélaga, viðbragsaðilum og fulltrúum úr raforku- og fjarskiptageiranum þar sem farið verður yfir stöðu mála byggt á nýjustu sviðsmyndum.

Víðir Reynisson segir ómetanlegt að hafa líkan á borð við þetta til grundvallar skipulagningunni. „Þetta sýnir mikilvægi vísindastarfa í starfi okkar hjá almannavörnum.“

Hann segir mikilvægt að horft sé á stóru myndina. „Við vitum hvernig náttúran hegðar sér með sínum ófyrirsjáanleika og þar af leiðandi þurfum við að varast að fá rörsýn á einhverja eina sviðsmynd,“ segir Víðir. Þótt ekki sé útlit fyrir að rýma þurfi byggð á Reykjanesi eins og staðan er núna séu menn engu að síður undir það búnir.

Ef gos hæfist fengist mun nákvæmara líkan sem hægt væri að nýta við slíka rýmingu, en að sögn Víðis er hraunrennslið sjaldnast á þeim hraða að menn séu í bráðri hættu. 

Uppfært 13:02:
Á samráðsfundinum var ekki farið yfir eldgosahættu heldur aðeins skjálftavirkni og mögulega þróun hennar. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert